Endurskoðun á framfærslugrunni námslána

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:45:03 (4109)

2004-02-12 10:45:03# 130. lþ. 63.2 fundur 104. mál: #A endurskoðun á framfærslugrunni námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um þingsköp hefur hv. fyrirspyrjandi, Björgvin G. Sigurðsson, beint eftirfarandi spurningu til mín, með leyfi forseta:

,,Er undirbúningur hafinn að því að endurskoða framfærslugrunn námslána? Ef svo er, hvenær er áætlað að tilbúinn verði nýr framfærslugrunnur sem viðmið útreikninga á þörf nemenda fyrir námslán?``

Ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á að framfærslugrunnur námslána er endurskoðaður árlega af stjórn LÍN, Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Endurskoðun hans á sér stað samhliða endurskoðun á úthlutunarreglum sjóðsins. Á þessu lánaári var vinnu við endurskoðunina lokið 7. maí á sl. ári og gera má ráð fyrir því að óbreyttu að framfærslugrunnur námslána verði næst yfirfarinn á svipuðum tíma á þessu ári, þ.e. í maí.

Núverandi framfærslugrunnur námslána er að uppistöðu til frá árinu 2000 og tók þá mið af neyslukönnun Hagstofu Íslands frá árinu 1995. Um þennan grunn og endurskoðun hans síðan hefur verið full samstaða milli fulltrúa námsmanna og fulltrúa ríkisstjórnarinnar í stjórn LÍN. Við árlega endurskoðun grunnsins er tekið mið af almennum verðlagsbreytingum en einnig öðrum breytingum sem ljóst er að hafa mikla þýðingu fyrir framfærslu námsmanna. Sem dæmi um þetta má nefna að skólaárið 2002--2003 var ákveðið að lækka áætlaðan húsnæðiskostnað í grunninum þar sem húsaleigubætur töldust ekki lengur til skattskyldra tekna námsmanna. Árið 2003--2004 var á hinn bóginn niðurstaðan að hækka nokkra kostnaðarliði umfram spáða verðlagshækkun, svo sem ferðir og flutninga vegna 12% hækkunar fargjalda strætisvagna og húsnæði vegna 8% hækkunar húsnæðisgjalda samkvæmt nýrri athugun frá Hagstofunni.

Síðan árið 2000 hefur framfærslugrunnur námslána hækkað um 17,6%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 13,9%. Framfærslugrunnur námsmanna hefur þannig tryggt námsmönnum 3,7% hækkun umfram almennar verðlagshækkanir.

Skólaárið 2003--2004 hækkaði framfærslugrunnur námslána um 4,9% frá árinu á undan og nú er gert ráð fyrir að ársútgjöld einhleyps námsmanns í leiguhúsnæði séu tæpar 1.284 þús. kr. eða um 107 þús. kr. á mánuði. Í úthlutunarreglum er síðan tekið sérstakt tillit til námsmanna sem búa við aðrar aðstæður svo sem til þeirra sem eru með börn á framfæri og/eða eru við nám erlendis.

Helstu breytingar á úthlutunarreglum LÍN sl. vor voru hækkun grunnframfærslu úr 75.500 í 77.500 kr. á mánuði, hækkun frítekjumarks úr 280 þús. kr. í 300 þús. kr. og lækkun skerðingarhlutfalls vegna tekna. Það var lækkað úr 40% í 35%.

Að teknu tilliti til breytinga á reglum sjóðsins, hækkunar framfærslugrunns og tekna lánþega var ætlað að ráðstöfunartekjur námsmanna hækkuðu að meðaltali um 5% milli skólaáranna 2002 og 2003 til 2003 og 2004.