Laganám

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 10:54:06 (4114)

2004-02-12 10:54:06# 130. lþ. 63.3 fundur 216. mál: #A laganám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Á þingskjali 229 hef ég lagt fram fyrirspurn til menntmrh. um laganám. Eins og menn vita hafa orðið gríðarlegar breytingar á laganámi hér á landi á undanförnum árum og nú háttar svo til að fjórir háskólar bjóða upp á nám í lögfræði. Í Háskóla Íslands er boðið upp á BA-próf í lögfræði og svo meistarapróf, samtals fimm ár. Í Háskóla Reykjavíkur er sömuleiðis boðið upp á BA-próf og síðan meistaranám á alþjóðasviði, viðskiptalögfræðisviði eða málflutnings- og dómssviði. Viðskiptaháskólinn á Bifröst býður upp á BS-gráðu í viðskiptalögfræði og síðan MS-nám í viðskiptalögfræði eða ML-gráðu í lögfræði. Síðasti háskólinn sem bættist í þessa flóru er Háskólinn á Akureyri þar sem nýhafin er kennsla í lögfræði til BS-prófs.

Á Norðurlöndum er það þannig að í Danmörku bjóða tveir háskólar upp á nám í hefðbundinni lögfræði. Í Noregi og Finnlandi eru þeir þrír og í Svíþjóð eru þeir fimm. Hér eru þeir sem sagt orðnir fjórir þannig að það á fyrir okkur að liggja í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum að við stöndum nágrönnum okkar framar.

Það sem hér er hins vegar ólíkt því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum er að hér eru engar samræmdar reglur um inntak laganáms eða námskröfur. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að lögfræðingum er ætlað að vera embættisgengir eftir útskrift og starfa sem dómarar eða sem sýslumenn og fara með einkamál og sakamál, sifjaréttarmál, aðfarargerðir og nauðungarsölur sem opinberir starfsmenn og embættismenn. Þetta krefst allt saman víðtækrar þekkingar á öllum sviðum lögfræðinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að til séu samræmdar reglur um hvað lögfræðingar eigi að kunna og hvað við ætlumst til að þeir geti að námi loknu.

Þetta er gert víða erlendis og t.d. alls staðar á Norðurlöndunum. Ég get nefnt sem dæmi að í Danmörku er mjög ítarleg reglugerð um háskólanám í hefðbundinni lögfræði.

Í júní 2003 skrifaði háskólarektor bréf til menntmrh. þar sem óskað var eftir viðræðum við ráðherra og aðra háskóla um framtíð háskólanáms í lögfræði. Eftir því sem ég kemst næst hefur þessu bréfi ekki verið svarað og það er auðvitað vanvirðing við Háskólann að gera það ekki.

Ég vil því ýta á eftir þessu máli með því að leggja fram fyrirspurn sem er á þskj. 229.

Ég spyr hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir samræmingu náms í hefðbundinni lögfræði?``