Laganám

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:04:14 (4118)

2004-02-12 11:04:14# 130. lþ. 63.3 fundur 216. mál: #A laganám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa ágætu umræðu. Aðalatriðið í málinu er að við erum að útskrifa lögfræðinga úr fjórum skólum. Við ætlum þessum lögfræðingum ákveðið hæfi og gengi til að gegna ákveðnum embættum og fara með ákveðin störf í okkar samfélagi, til að mynda dómsvald, vald sýslumanna og ýmsa aðra handhöfn opinbers valds. Þetta þýðir að við verðum að hafa einhverjar lágmarkskröfur um það hvað þetta fólk á að kunna og hvað þetta fólk á að geta gert í sínum störfum. Það dugar ekki fyrir hæstv. menntmrh. að koma hér og vísa bara til sjálfstæðis háskóla. Það er ekki það sem málið snýst um. Auðvitað er mjög gott að það séu fjórir háskólar sem bjóða upp á metnaðarfullt nám í lögfræði. Það er bara af hinu góða en það er ekki nóg að það séu einhverjar úttektir á laganámi reglulega heldur verða að liggja fyrir ákveðnar kröfur þannig að það liggi fyrir hvað lögfræðingar eigi að geta gert þegar þeir útskrifast. Mér finnst fyrir neðan allar hellur þegar hæstv. menntmrh., sem er löglærð, vísar til náms í viðskiptafræði og hjúkrunarfræði í þessum efnum, gjörólíkt. Hvaða störf eru það þar sem viðskiptafræðingar og hjúkrunarfræðingar fara með opinbert vald með sama hætti og lögfræðingar eða hafa embættisgengi með sama hætti og lögfræðingar. Þetta er gjörólíkt, hæstv. forseti, (Gripið fram í: Stattu þig.) og ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þá a.m.k. háskólarektor með þeim hætti sem komið hefur fram í umræðunni.