Laganám

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:06:11 (4119)

2004-02-12 11:06:11# 130. lþ. 63.3 fundur 216. mál: #A laganám# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég fer samkvæmt lögum. Hér ríkja lög um sjálfstæði háskóla hvort sem það er Háskóli Íslands eða aðrir háskólar. Ég tel samræmdar reglur ekki vera í samræmi við lögin um sjálfstæði háskóla, engan veginn. Ég tel það ekki vera mitt hlutverk að setja niður miðstýrðar reglur sem um leið ógna sjálfstæði háskólanna. Aftur á móti er hlutverk mitt að hafa eftirlit með háskólunum og þar á meðal lagadeildum þessara ágætu háskóla. Þess vegna er ég að fara af stað með úttekt á lagadeild Háskóla Íslands og ætla svo að fara í úttektir á öðrum deildum.

Ég vil hins vegar minna á að það kom fram skýr vilji á sínum tíma á hinu háa Alþingi þegar við fjölluðum um lög um Háskóla Íslands, um það frv. sem þá var til umfjöllunar. Það var lögð fram tillaga af hálfu þáv. varaþingmanns Framsfl. sem lagði fram tillögu um að það ætti að samræma reglur í námi sem fellur undir viðskiptafræði. Það er kannski ekki jafngöfugt nám að mati hv. þm. eins og lögfræði en það var engu að síður lögð fram tillaga um að samræma ætti reglur í háskólanum um viðskiptafræði. Hún var felld á þinginu. Það er því skýr vilji þingsins að við eigum ekki að vera að skipta okkur allt of mikið af sjálfstæði háskólanna heldur var einfaldlega sagt við okkur: Menntmrh. fer með eftirlit með þessum góðu háskólastofnunum og honum ber að fylgja því eftir að slíku eftirliti sé framfylgt. Það er hans hlutverk. Háskólarnir geta eftir sem áður, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, samræmt reglur sín á milli en menntmrh. skiptir sér ekki af því. Þessir ágætu rektorar geta sem sagt sest niður að sama borði og reynt að útfæra slíkar reglur en menntmrh. kemur ekki til með að hafa forgöngu um slíkt.