Rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:22:08 (4125)

2004-02-12 11:22:08# 130. lþ. 63.5 fundur 354. mál: #A rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:22]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn tengist að mörgu leyti fyrirspurn minni hér á undan, um rannsóknarfé til háskóla. Hún varðar þau undarlegu vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þeim efnum. Þannig hefur ekki verið staðið við vilyrði sem gefin hafa verið háskólum um framlög frá fjárveitingavaldinu til rannsókna.

Þann 31. maí árið 2000 undirrituðu þáv. hæstv. menntmrh., Björn Bjarnason, og rektor Háskólans í Reykjavík kennslusamning. Samhliða því var gefin út yfirlýsing um gerð rannsóknarsamnings við skólann. Þessi samningur hefur enn ekki verið gerður. Þessi yfirlýsing, sem gefin var út um mitt ár 2000, um samning sem ekki hefur enn verið gerður tæpum fjórum árum síðar finnst mér kristalla það stefnuleysi sem hefur ríkt í tíð ráðherra sjálfstæðismanna í menntmrn.

Síðast heyrðum við að efla ætti samkeppnissjóðina sem háskólarnir geta sótt í og er það vel. En eftir stendur að vilyrði var gefið og undirrituð yfirlýsing um rannsóknarsamning við Háskólann í Reykjavík. Þar segir í lok yfirlýsingarinnar, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli þessa munu menntmrh. og rektor HR beita sér fyrir gerð sérstaks samnings um rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefni við stofnunina.``

Þetta var undirritað þann 31. maí árið 2000.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég skil hvorki upp né niður í stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum. Eru menn að gefa yfirlýsingar út í bláinn, lofa skólum fjármagni en hætta síðan við? Á hvaða ferðalagi erum við?

Við slíkt starfsumhverfi geta skólarnir ekki unað. Þeim þarf að gefa skýr svör í eitt skipti fyrir öll um á hvaða grunni þeir eiga að grundvalla rekstur sinn, ekki gefa vilyrði hingað og þangað sem ekki er staðið við. Við hljótum að kalla á heildstæða og skýra stefnu í þessum efnum og skapa þannig frið milli háskólanna en ekki etja þeim saman og láta þá starfa í þeirri trú að þeir séu í samkeppni um framlög til rannsókna, t.d. við Háskóla Íslands, ef það er ekki ætlun ráðherra að gera rannsóknarsamning við aðra skóla en Háskóla Íslands. Það verður að skapa skýran starfsgrundvöll fyrir háskólana.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja:

1. Hvað líður gerð rannsóknarsamnings við Háskólann í Reykjavík?

Í öðru lagi var spurt, þegar þessi spurning var lögð fram á haustdögum:

2. Hvað telur ráðherra að rannsóknarsamningurinn þurfi að hljóða upp á háa fjárhæð á ári til að Háskólinn í Reykjavík geti sinnt rannsóknarskyldu sinni?

Nærtækara er þó að spyrja nú hvort hæstv. menntmrh. ætli að standa við yfirlýsinguna um rannsóknarsamning við Háskólann í Reykjavík eða ekki. Á hvaða leið er menntmrn. hvað varðar skilgreiningu á rannsóknarháskólum annars vegar og kennsluháskólum hins vegar?