Rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:30:43 (4129)

2004-02-12 11:30:43# 130. lþ. 63.5 fundur 354. mál: #A rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:30]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég lít alls ekki á það sem leiðindi af hálfu hv. þingmanns, heldur miklu fremur áhuga sem kemur fram í spurningum hennar úr þessu púlti. Það er heldur ekki dónaskapur af hálfu hv. þingmanns að koma hérna fram, það eru aðrir í hennar ágæta flokki sem kunna þá list betur að vera með dónaskap.

Varðandi samkeppnina og samstarfsumhverfi háskólasamfélagsins vonast maður til þess að háskólarnir geti unnið vel saman. Við getum samt ekki litið fram hjá því að þeir eru líka í samkeppni og að því leytinu til er þessi mynd sem við sjáum í dag ákveðin birtingarmynd þessarar samkeppni sem menn standa frammi fyrir. Það er ekkert nema gott eitt um það að segja.

Ég vil undirstrika það að núna standa yfir samningaviðræður milli ráðuneytisins og sjálfstæðu háskólanna þar sem við erum að ræða annars vegar um kennslusamning og hins vegar um rannsóknarmálin. Fleira get ég ekki sagt að sinni um þau málefni meðan þeir samningar og þær samningaviðræður standa yfir.