Listasafn Samúels Jónssonar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:32:10 (4130)

2004-02-12 11:32:10# 130. lþ. 63.6 fundur 471. mál: #A listasafn Samúels Jónssonar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 680 hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um listasafn Samúels Jónssonar.

Þannig háttaði til að ég var á ferð um Vestfirði í sumar og dvaldi þar í viku, sótti m.a. heim Selárdal í Arnarfirði, sem er nú frekar fáfarinn, og var að koma þar í fyrsta skipti. Þá kom ég að Brautarholti í Selárdal en þar bjó eitt sinn maður að nafni Samúel Jónsson. Hann var fæddur 1884 og lést í hárri elli 1969. Samúel Jónsson var alþýðulistamaður, svokallaður naívisti, og honum var einhvern tíma gefið viðurnefnið ,,listamaðurinn með barnshjartað``. Ef ég man rétt var það Hannibal Valdimarsson sem fann honum það viðurnefni.

Á efri árum sínum réðst Samúel í það að byggja kirkju og hús í Brautarholti og bjó einnig til ýmis listaverk sem þar eru á hlaðinu, aðallega úr steinsteypu. Það er sagt að hann hafi byggt kirkjuna í Brautarholti þegar altaristafla sem hann gerði fyrir kirkjuna í Selárdal var afþökkuð.

Hvað sem því líður eru á hlaðinu í Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði ákaflega sérstæð og merkileg listaverk sem því miður liggja undir skemmdum. Þessi verk eru farin að grotna og verða brátt að engu verði ekkert að gert.

Ég lít svo á að hér sé um merkileg menningarverðmæti að ræða sem væri mikil synd að færu forgörðum. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til menntmrh. til að vekja athygli á málinu hér á hinu háa Alþingi og spyr hvort hæstv. ráðherra hafi áform um að stuðla að varðveislu listaverka Samúels Jónssonar í Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði.