Listasafn Samúels Jónssonar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:34:42 (4131)

2004-02-12 11:34:42# 130. lþ. 63.6 fundur 471. mál: #A listasafn Samúels Jónssonar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Þau ágætu og sérstöku listaverk í Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði sem vikið er að í fyrirspurninni tilheyra hvorki formlegri safnastarfsemi samkvæmt safnalögum né þjóðminjavörslu eins og hún er skilgreind í þjóðminjalögunum, nr. 107/2001. Ákvarðanir um varðveislu þeirra og endurgerð hafa því hvorki verið á borði í menntmrn. né hefur verið leitað til ráðuneytisins með óskir um varðveislu umræddra verka.

Engu að síður hefur verið fylgst með málinu undanfarin ár og er okkur í ráðuneytinu vel kunnugt um ástand verkanna og húsanna en við höfum því miður ekki verið í þeirri aðstöðu að grípa til aðgerða.

Jörðin Brautarholt í Selárdal í Arnarfirði er jörð í eigu íslenska ríkisins og fer landbrn. með umsjón hennar og þeirra mannvirkja sem á jörðinni eru. Undir lok síðasta árs greindi landbrn. frá því að það hygðist verja nokkru fé til varðveislu mannvirkjanna og óskaði eftir viðhorfi menntmrn. til málsins.

Í svari menntmrn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðuneyti lýsir ánægju sinni með fyrirætlanir landbúnaðarráðuneytisins í þessu sambandi og fer þess jafnframt á leit að húsafriðunarnefnd ríkisins verði falin ráðgjöf og fagleg umsjón með verkinu. Ráðuneytið bendir einnig á nauðsyn þess að haft sé samráð við Fornleifavernd ríkisins vegna hugsanlegra fornminja í Selárdal.``

Landbrn. hefur orðið við óskum menntmrn. um aðkomu húsafriðunarnefndar og Fornleifaverndar að verkefninu og er óhætt að vona að farsællega verði staðið að því. Ég vil í lok svars míns ítreka að ég fagna sérstaklega frumkvæði landbrn. í þessu efni.