Varðveisla hella í Rangárvallasýslu

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:42:23 (4136)

2004-02-12 11:42:23# 130. lþ. 63.7 fundur 474. mál: #A varðveisla hella í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Ágæti forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn til menntmrh. um varðveislu hella í Rangárvallasýslu þar sem ég spyr hvort fyrirætlanir séu um, með leyfi forseta:

a. varðveislu manngerðra hella í Rangárvallasýslu,

b. að stuðla að rannsóknum fornleifafræðinga á hellunum,

c. að stuðla að viðgerð hella sem skemmdust í jarðskjálftunum á Suðurlandi árið 2000?

Upphaflega beindi ég þessari fyrirspurn til hæstv. umhvrh. en þingið beindi henni til hæstv. menntmrh. þar sem um manngerða hella er að ræða.

Í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu er að finna mikið af manngerðum hellum, enda er svæðið einkar hentugt til hellagerðar þar sem um móbergssvæði er að ræða. Um er að ræða hella sem eru á meðal merkari mannvistarleifa á Íslandi og eru þeir á margan hátt einstakir í sinni röð. Fjöldi þeirra er mikill og hella er að finna á flestum bæjum á ákveðnum svæðum í Rangárvallasýslu. Hellarnir hafa því skipt verulega miklu máli fyrir mannlíf og búskap á þessu svæði í gegnum aldirnar. Yngstu hellarnir eru höggnir út í kringum 1920 en þeir elstu eru taldir vera frá því fyrir landnám norrænna manna á Íslandi, gerðir af írskum munkum, og voru hellarnir notaðir í þeirra tíð bæði sem skepnuhús, hlöður og heygeymslur. Með breyttum búskaparháttum hættu menn að nota hellana og eru þeir nú í mikilli niðurníðslu. Verði ekki gripið til ráðstafana til að bjarga þeim og þessum merku mannvistarleifum er hætt við að þarna glatist merkileg menningarverðmæti og mikilvægur þáttur í menningartengdri ferðaþjónustu á þessu svæði.

Hellar þessir hafa aldrei verið rannsakaðir fullkomlega né aldursgreindir en flestir skráðir. Er þá skráningu að finna í bókinni ,,Manngerðir hellar á Íslandi`` sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Því er mikilvægt að ráðast í rannsóknir og fullkomna skráningu hellanna um leið og endurgerð þeirra eða hluta þeirra færi fram.

Í jarðskjálftunum miklu 17. júní árið 2000 fóru margir hellarnir illa, lögðust saman og lokuðust. Það er vond staða sem þarf að bregðast við. Auk þess að vera merk menningarverðmæti skiptir tilvist þeirra og aðgengi að þeim miklu fjárhagslegu máli fyrir ferðaþjónustuna á þessu svæði og uppbyggingu hennar. Hellar þessir eru meðal sérstöðu Rangárvallasýslunnar, laða að marga ferðamenn og eru stór þáttur í uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu á þessum miklu og merkilegu söguslóðum sem þarna er um að ræða.

Því beini ég áðurnefndri fyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvort fyrirætlanir séu uppi um að varðveita þessa manngerðu hella í Rangárvallasýslu, hvort stuðla eigi að rannsóknum fornleifafræðinga á hellunum og hvort stuðla eigi að viðgerð hellanna sem skemmdust þegar margir féllu saman í jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. júní árið 2000.