Varðveisla hella í Rangárvallasýslu

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:45:33 (4137)

2004-02-12 11:45:33# 130. lþ. 63.7 fundur 474. mál: #A varðveisla hella í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:45]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr:

,,Eru fyrirætlanir um:

a. varðveislu manngerðra hella í Rangárvallasýslu?``

Með breytingu á þjóðminjalögunum í maí 2001 fluttust málefni friðlýstra fornleifa, þeirra á meðal manngerðra hella, frá Þjóðminjasafni Íslands, yfir í Fornleifavernd ríkisins. Meðal forgangsverkefna hjá Fornleifavernd ríkisins er varðveisla manngerðra hella í Rangárvallasýslu. Manngerðu hellarnir eru einstakar minjar og sumir jafnvel taldir vera elstu uppistandandi hús á Íslandi.

Nú stendur fyrir dyrum að vinna að stefnumörkun á sviði fornleifaverndar og meðal þeirra atriða sem taka þarf ákvarðanir um er nýting manngerðu hellana almennt og hvernig varðveislu þeirra verði best háttað.

Það er t.d. brýnt að bæta aðgengi að hellunum og að sett verði upp upplýsingaskilti við þá, ferðafólki til fróðleiks. Nú er unnið að gerð textanna um hellana sem gerðir verða aðgengilegir á veraldarvefnum. Til fróðleiks má nefna að Fornleifavernd ríkisins hefur verið í samvinnu við landbrn. varðandi nýtingu og verndun hella í Þjóðólfshaga.

Varðandi fyrirætlanir um að stuðla að rannsóknum fornleifafræðinga á hellunum, tel ég mikilvægt að manngerðir hellar landsins verði rannsakaðir með fornleifagreftri og yrði það mikill fengur ef unnt yrði að aldursákvarða einhvern þeirra með nokkurri vissu. Hvað varðar rannsóknir fornleifafræðinga á hellunum hafa verið gerðar minni háttar rannsóknir á þeim. Til dæmis gerði Kristján Ahronson, vestur-íslenskur fornleifafræðingur, minni háttar rannsóknir á Seljalands- og Kverkarhelli sumarið 2002. Ýmsir fornleifafræðingar hafa sýnt hellarannsóknum áhuga en fjármagn hefur ekki fengist til slíkra rannsókna enn sem komið er.

Fornleifafræðingar Fornleifaverndar ríkisins rannsökuðu umfang og eðli þeirra minja sem komu í ljós þegar unnið var að viðgerðum á hellunum sl. sumar. Niðurstöður þeirrar úttektar er að finna í skýrslu Fornleifaverndar, ,,Úttekt á manngerðum hellum á Suðurlandi sumarið 2003``.

Vert er að benda á að hellarannsóknir Árna Hjartarsonar jarðfræðings, Guðmundar Guðmundssonar sagnfræðings og Hallgerðar Gísladóttur þjóðháttafræðings og bók þeirra ,,Manngerðir hellar á Íslandi``, sem gefin var út 1991, kemur líka inn á þetta. Er þar að finna langumfangsmestu rannsókn á manngerðum hellum á síðari tímum. Hún fólst þó ekki í fornleifauppgreftri heldur voru hellarnir mældir upp, teiknaðir og ljósmyndaðir ásamt því að fjallað var um sögu þeirra.

Varðandi spurninguna um hvort fyrirætlanir séu um að stuðla að viðgerð hella sem skemmdust í jarðskjálftunum á Suðurlandi árið 2000, er rétt að geta þess að í kjölfar þeirra skjálfta sem voru 17. júní og 21. júní höfðu nokkrir landeigendur á Suðurlandi samband við Þjóðminjasafn Íslands sem þá fór með forræði friðlýstra fornleifa og tilkynntu um skemmdir á friðlýstum manngerðum hellum á svæðinu. Í framhaldi af því var ákveðið að gera könnun á ástandi allra manngerðra hella á Suðurlandi, en í þeim landshluta einum eru friðlýstir hellar á 42 jörðum, allt frá einum helli upp í tólf á hverri jörð. Manngerðir hellar eru þó miklu fleiri á svæðinu eða hátt á annað hundrað á 90 jörðum allt frá Ölfusi hinu góða og austur í Mýrdal. Í ljós kom að skemmdir á hellunum voru mismiklar, allt frá smávægilegu hruni til þess að þeir teldust hættulegir mönnum og dýrum.

Í framhaldi af forkönnuninni sótti Þjóðminjasafn Íslands um styrk til forsrn. árið 2001 til að meta skemmdir á hellunum og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda þá. Í lok árs 2002 veitti forsrn. Fornleifavernd ríkisins, sem þá var tekin til starfa, 4,5 millj. kr. styrk til verkefnisins. Á vormánuðum 2003 hófu starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins úttekt á ástandi manngerðra hella í samvinnu við Víglund Kristjánsson eiganda fyrirtækisins Torf- og grjóthleðslan á Hellu. Lögð var áhersla á að kanna ástand friðlýstra hella og er lokið við könnun á 27 hellum af 90. Jafnframt var ákveðið að nýta styrkinn til að gera við einn hellanna, Árbæjarhelli í Rangárþingi ytra. Hellirinn er meðal merkustu fornleifa á Íslandi með ristum frá ýmsum tímum á veggjunum. Eigandi hans hafði nýlokið kostnaðarsamri viðgerð á hellinum þegar jarðskjálftarnir dundu yfir. Hellirinn fór langverst í jarðskjálftunum af öllum hellum svæðisins og var eftir hamfarirnar stórhættulegur mönnum og dýrum.

Á fjárlögum 2003 og 2004 fékk Rangárþing ytra framlag til viðgerða á Hellnahelli. Fornleifavernd ríkisins stefnir að því að úttekt á friðlýstum hellum og viðgerðum þeirra verði haldið áfram en tryggja þarf áframhaldandi fjárframlag áður en af því getur orðið. Áætlaður kostnaður vegna viðgerða á þeim friðlýstu hellum sem eftir eru og skemmdust í jarðskjálftunum er talinn nema um 5 millj. kr.