Viðurkenning starfsnáms á Norðurlöndum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:13:56 (4148)

2004-02-12 12:13:56# 130. lþ. 63.9 fundur 494. mál: #A viðurkenning starfsnáms á Norðurlöndum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað vera viðstödd þá umræðu sem fram fór í þinginu um daginn. En eins og fram kom í orðum hv. þm. Marðar Árnasonar skilur hann það hlutverk sem menntmrh. hefur að gegna. Ráðherra þarf oftar en ekki að vera víðs vegar um bæinn og fara um landið að gegna skyldustörfum sínum. Engu að síður er slæmt að missa af umræðu um jafnskemmtilegt, áhugavert og nauðsynlegt umræðuefni eins og um hvernig hægt er að efla starfs- og verkmenntun.

Ég tel eitt af hlutverkum mínum sem menntmrh. að takast á við þau verkefni að efla þessa þætti. Ég mun gera það og setjast vel yfir það, nýta Norðurlandasamstarfið, nýta það svigrúm og þann grundvöll sem við höfum innan lands og m.a. í því ljósi efla þær deildir sem við höfum innan lands. Þá er ég að tala um Háskóla Íslands. Ég er að tala um Tækniháskólann og síðan stöndum við frammi fyrir því hvort við eigum að auka samkeppni enn frekar á sviði tækni- og verkfræðimenntunar.