Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:17:40 (4150)

2004-02-12 12:17:40# 130. lþ. 63.10 fundur 496. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason spyr: ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að létt verði af Ríkisútvarpinu lífeyrisskuldbindingum sem á það voru lagðar árið 1993.``

Sú ákvörðun sem tekin var árið 1993 að láta B-hluta ríkisstofnanir standa undir lífeyrisskuldbindingum sínum sjálfar án nokkurra bóta hefur komið sér illa fyrir stofnanir menntmrn. sem hafa lítinn hluta af fjárframlagi sínu sem sértekjur eins og Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands og fyrir RÚV sem ræður ekki sjálft yfir þeirri hækkun afnotagjalda sem það þyrfti á að halda.

Vandi Þjóðleikhússins var leystur með því að setja stofnunina sem A-hluta stofnun og verið er að vinna að samkomulagi rekstraraðila til að leysa vanda Sinfóníuhljómsveitarinnar en eftir stendur vandi Ríkisútvarpsins. Lífeyrisskuldbindingar vegna fyrri ára voru færðar í reikningsskil ríkisfyrirtækja í ríkisreikningi ársins 1995 en þær höfðu áður verið færðar hjá ríkissjóði. Hjá Ríkisútvarpinu voru þannig 1.640 millj. kr. færðar á því ári til skuldar og til lækkunar á eigin fé.

Á miðju árinu 1999 gerði Ríkisútvarpið samning við LSR um að greiða upp áfallnar lífeyrisskuldbindingar stofnunarinnar við sjóðinn sem metnar voru þá á 2.493 millj. kr. Ríkisútvarpið gaf út skuldabréf að fjárhæð um 2.251 millj. kr. til 25 ára með 5% vöxtum og verðtryggingu samkvæmt vísitölu neysluverðs en bréfið er með jöfnum greiðslum afborgana og vaxta út lánstímann. Þetta þekkir hv. þm. Mörður Árnason mjög vel.

Fyrsti gjalddagi skuldabréfsins var 1. apríl 2001. Ríkisútvarpið hafði áður en skuldabréfið var gefið út farið þess á leit við fjmrn. að ríkið yfirtæki hluta af þessum skuldbindingum með sama hætti og gert var þegar Póst- og símamálastofnun var breytt í hlutafélag, en þeirri málaleitan var hafnað. Ótvírætt er að hækkun lífeyrisskuldbindinga hefur mjög íþyngt rekstri og greiðslustöðu RÚV undanfarin ár. Staða lífeyrisskuldbindingalánsins var 2.604 millj. kr. um síðustu áramót og nemur árleg greiðsla vaxta og afborgana af skuldabréfinu um 205 millj. kr.

Annað sem vert er að nefna er að RÚV er ætlað að standa undir fjórðungi af kostnaði við rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og eru það um 120 millj. kr. árlega. RÚV mun einnig þurfa að taka á sig sinn hlut í fyrirhuguðu samkomulagi rekstraraðila Sinfóníunnar sem gerir ráð fyrir að gengið verði frá samkomulagi við LSR um uppgjör á uppsöfnuðum lífeyrisskuldbindingum starfsmanna hljómsveitarinnar, sem námu um 1.500 millj. kr. samkvæmt ársreikningi 2002, og að rekstraraðilar greiði 140 millj. kr. skuld hljómsveitarinnar hjá ríkissjóði vegna greiðslu til LSR vegna hækkunar á lífeyri fyrrverandi starfsmanna hljómsveitarinnar. Ljóst er að RÚV mun ekki geta staðið við sinn hluta samkomulagsins nema til þess fáist sérstök aðstoð.

Undanfarin ár hefur RÚV verið rekið með halla og hefur rekstrarvandi Ríkisútvarpsins verið til sérstakrar umfjöllunar í menntmrn. um nokkurt skeið. Kostnaður stofnunarinnar vegna lífeyrisskuldbindinga er aðeins hluti þess fjárhagsvanda sem RÚV á við að stríða. Ljóst er að lífeyrismálið eitt og sér verður vart tekið út fyrir sviga heldur verður að leysa mál RÚV í heild sinni. Ég hef þegar lýst því yfir, strax á mínum fyrstu dögum sem ráðherra, að ég komi til með að beita mér fyrir því að reyna að styrkja og efla RÚV þannig að við komum til með að beina þeirri vinnu m.a. að fjármálum stofnunarinnar og ekki síður að hinu að hægt verði að beina fjármálunum þannig að við sjáum aukningu á innlendri dagskrárgerð.