Rafræn sjúkraskrá

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:04:51 (4170)

2004-02-12 13:04:51# 130. lþ. 63.13 fundur 486. mál: #A rafræn sjúkraskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:04]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta upp því að töluverð umræða hefur verið um rafræna sjúkraskráningu og hvað hún gæti þýtt fyrir heilbrigðiskerfið í heild sinni. Við höfum heilmikið rætt það að ná þurfi utan um kostnað í heilbrigðisþjónustunni. Ég held að ef rafrænni sjúkraskráningu verði komið á, ekki bara á öllum stofnunum innan heilbrigðiskerfisins heldur einnig hjá sjálfstætt starfandi læknum, þá skipti það höfuðmáli í því að ná utan um kostnað í heilbrigðiskerfinu hvort heldur á lyfjasviðinu eða á lækningasviði. Upplýsingar sem við höfum t.d. frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi segja okkur að hægt væri að draga verulega úr kostnaði Landspítala -- háskólasjúkrahúss ef rafræn sjúkraskráning væri þar komin á.

Ég fagna hins vegar áhuga hæstv. ráðherra og yfirlýsingunni sem mér heyrðist hann gefa okkur hér um að þessu yrði komið á innan tveggja til þriggja ára.