Rafræn þjónusta

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:23:02 (4194)

2004-02-12 14:23:02# 130. lþ. 63.26 fundur 490. mál: #A rafræn þjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson bar upp fyrirspurn til mín sem viðskrh. um rafræna þjónustu. Fyrirspurn þessi lýtur að því hvort ég hafi áform um að efla opinbera rafræna þjónustu. Ég lít svo á að með rafrænni þjónustu eigi fyrirspyrjandi við rafræn viðskipti, rafræna stjórnsýslu og aðra rafræna þjónustu.

Í starfi mínu sem iðn.- og viðskrh. hef ég lagt áherslu á að stuðla að rafrænum viðskiptum og rafrænni þjónustu, m.a. með því að að búa þeim hagstætt lagalegt umhverfi. Í því sambandi tel ég mikilvægt að lagaákvæði á þessu sviði séu skýr og að ekki verði settar íþyngjandi sérreglur á sviði rafrænna viðskipta og rafrænnar þjónustu nema brýna nauðsyn beri til.

Á árinu 2001 var samþykkt á Alþingi frv. sem ég hafði lagt fram til laga um rafrænar undirskriftir. Lögin um rafrænar undirskriftir marka grundvöll að notkun rafrænna undirskrifta og vottorða og stuðla þannig að auknu trausti á sviði rafrænna viðskipta og þjónustu.

Þá lagði ég fram frv. til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu á 127. löggjafarþingi sem varð að lögum 30/2002. Ég er sannfærð um að lög þessi koma til með að skýra réttarstöðu þeirra sem stunda rafræn viðskipti og rafræna þjónustu, ekki hvað síst varðandi spurninguna um hvaða lögum eigi að beita á starfrækslu þeirra. Annað sem vert er að nefna og beinlínis miðar að eflingu rafrænnar þjónustu er umfangsmikið þróunarverkefni um rafrænt samfélag á landsbyggðinni sem hóf göngu sína á síðasta ári. Framlag ríkisins til verkefnisins nemur samtals 120 millj. kr. sem renna til framkvæmda þess á þriggja ára tímabili.

Efnt var til samkeppni --- hv. þm. kom nú inn á þetta mál --- af hálfu iðn.- og viðskrn. meðal byggðarlaga á landsbyggðinni um þátttöku í verkefninu sem er liður í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ráðist var í verkefnið í ljósi sláandi upplýsinga um að íbúar landsbyggðarinnar stæðu íbúum höfuðborgarsvæðisins talsvert að baki við tileinkun og notkun upplýsingatækni. Markmið þróunarverkefnisins um rafrænt samfélag er að treysta stöðu upplýsingasamfélagsins á landsbyggðinni svo að íbúar hennar geti á sem bestan og hagkvæmastan hátt nýtt sér þann ávinning sem upplýsinga- og fjarskiptatæknin býður upp á.

Niðurstaða samkeppninnar varð sú að tvö byggðarlög voru valin til þátttöku í þriggja ára þróunarverkefni um rafrænt samfélag og fá til þess fjárframlög frá ríkinu á móti eigin framlagi. Byggðarlögin eru annars vegar Árborg, Hveragerði og Ölfus og hins vegar Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjarsveit. Þróunarverkefninu um rafrænt samfélag er ætlað að hafa víðtæk áhrif á þróun þessara byggðarlaga og annarra byggðarlaga um landið sem geta í framhaldinu hagnýtt sér þá þekkingu og reynslu sem skapast við framkvæmd verkefnisins og eflt rafræna þjónustu sína.