Rafræn þjónusta

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:28:34 (4196)

2004-02-12 14:28:34# 130. lþ. 63.26 fundur 490. mál: #A rafræn þjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tek þessum hvatningarorðum vel, að sjálfsögðu. Ég ætla aðeins að bæta því við sem ekki kom fram áðan að á árinu 1999 lét viðskrn. gera skýrslu um rafræn viðskipti og lagaumhverfi þeirra. Niðurstaða hennar var að íslensk lög væru að meginstefnu til fullnægjandi en að huga þyrfti að þróuninni í Evrópu og í heiminum öllum við setningu frekari reglna á sviði rafrænna viðskipta. Skýrslan var notuð til frekari stefnumótunar á þessu sviði.

Hvað varðar lögin um rafræn viðskipti sem samþykkt voru á árinu 2002 snúast þau að meginatriði um fjóra þætti. Í fyrsta lagi er kveðið á um að íslensk stjórnvöld skuli hafa eftirlit með þeim veitendum rafrænnar þjónustu sem hafa staðfestu hér á landi, þ.e. stunda hér virka atvinnustarfsemi ótímabundið í fastri starfsstöð.

Í öðru lagi er kveðið á um þær upplýsingar sem þjónustuveitendum ber að veita, t.d. á heimasíðum sínum. Bæði er hér kveðið á um almenna upplýsingagjöf og upplýsingagjöf í tengslum við pöntun.

Í þriðja lagi er kveðið á um þá meginreglu að rafrænir samningar séu jafngildir skriflegum og í fjórða lagi er kveðið á um takmörkun ábyrgðar þeirra þjónustuveitenda sem veita t.d. aðgang að netinu og hýsa gögn sem þar er dreift.

Í heildina séð held ég að við höfum verið að fylgjast með þróuninni í iðn.- og viðskrn. og leggja okkur fram um það að koma fram með frv. á hv. Alþingi sem hafa verið í takt við tíðarandann. Sérstaklega er ég stolt af því verkefni sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni og varðar rafrænt samfélag, meiri þátttöku og aukna þekkingu landsbyggðarmanna í sambandi við þessa nýju tíma.