Bið eftir heyrnartækjum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:34:07 (4198)

2004-02-12 14:34:07# 130. lþ. 63.17 fundur 536. mál: #A bið eftir heyrnartækjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggur fram fyrirspurn í nokkrum liðum um bið eftir heyrnartækjum.

Í fyrsta lagi. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér má ætla að 700 einstaklingar bíði nú eftir heyrnartækjum. Þar af eru um 630 einstaklingar á biðlista eftir tækjum frá Heyrnar- og talmeinastöð og um 70 einstaklingar á biðlista hjá Heyrnartækni ehf.

Biðlisti eftir heyrnartækjum hefur styst verulega á einu ári, enda hefur á því tímabili verið lögð mikil vinna í það af hálfu stjórnenda Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar að nýta ráðstöfunarfé hennar með sem hagkvæmustum hætti. 1.100 manns biðu eftir heyrnartækjum fyrir ári þannig að almennur biðtími eftir heyrnartækjum hefur styst úr 15--18 mánuðum í 8--9 mánuði. Nú bíða, eins og áður sagði, 700 manns eftir tækjum. Við það bætist að ekki er útilokað að biðlistar Heyrnar- og talmeinastöðvar og Heyrnartækni ehf. skarist, þ.e. að sami einstaklingurinn kunni að vera á biðlista á báðum stöðum. Þá er ekki útilokað að þeir sem nú eru þegar skráðir á biðlista Heyrnar- og talmeinastöðvar eigi ekki rétt á niðurgreiðslum strax. Eftir að biðtími eftir tækjum fór að styttast hefur komið í ljós að einstaklingar eiga ekki rétt á niðurgreiddu tæki fyrr en eftir 2--4 mánuði þegar röðin er komin að þeim.

Faglega er gengið út frá því að árleg þörf fyrir heyrnartæki hér á landi sé um 2.200 tæki. Á síðasta ári voru afgreidd 2.200 heyrnartæki frá Heyrnar- og talmeinastöðinni og um 312 niðurgreidd tæki frá Heyrnartækni ehf. Samtals voru því rúmlega 2.500 tæki afgreidd á síðasta ári með greiðsluþátttöku ríkisins, sem þýðir að almennt hefur verið gengið á biðlistana eftir heyrnartækjum eins og fram kemur í þeim tölum sem nefndar eru hér að framan. Til viðbótar þessum 2.500 tækjum seldi Heyrnartækni ehf. tæplega 300 tæki án greiðsluþátttöku ríkisins.

Varðandi biðtíma eftir heyrnartækjum er því til að svara að hann er nú að meðaltali 8--10 mánuðir hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Þeir sem eru í forgangshópi bíða í 4--5 mánuði og börn eru ekki á biðlista eftir heyrnartækjum, þau fá tafarlausa þjónustu. Hjá Heyrnartækni ehf. má gera ráð fyrir að biðtími eftir niðurgreiddum heyrnartækjum sé 4,5--5 mánuðir.

Spurt er um kostnaðinn við að eyða biðlistum. Gera má ráð fyrir að fjármagna þurfi kaup á 1.260 heyrnartækjum sem kosta ríkið um 35 millj. kr. Þetta byggist á þeim forsendum að um 700 einstaklingar bíði en 70--80% af þeim þurfi heyrnartæki í bæði eyru og þátttaka ríkisins í kostnaði við hvert tæki sé 28 þús. kr.

Þessu til viðbótar má gera ráð fyrir auknum tímabundnum rekstrarkostnaði hjá Heyrnar- og talmeinastöð sem nemur 6--7 millj. kr. til að fjármagna viðbótarstarfsmann og aðstöðu fyrir hann. Samtals erum við því að tala um ríflega 40 millj. kr. sem það gæti kostað ríkið að eyða biðlistunum. Því má þó velta upp í þessu sambandi að eðli máls samkvæmt er aldrei hægt að eyða biðlistum til fulls þannig að hluti þeirra sem eru á biðlista er í venjulegu afgreiðsluferli.

,,Hversu margir leituðu til einkaaðila á síðasta ári vegna kaupa á herynartækjum og hve langur er biðlistinn þar?``

Eins og fram hefur komið seldi Heyrnartækni ehf. tæplega 600 heyrnartæki á árinu 2003. Þar af voru 312 tæki sem ríkið tók þátt í að niðurgreiða og því tæplega 300 tæki sem fyrirtækið seldi og ríkið tók ekki þátt í að greiða niður. Þá er einnig spurt hve langur biðtíminn var. Eins og fram kom í svari mínu við fyrstu spurningunni eru um 70 einstaklingar á biðlista eftir heyrnartækjum frá Heyrnartækni.

,,Hver er kostnaður einstaklinga við kaup á heyrnartækjum annars vegar hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og hins vegar hjá einkaaðilum?``

Heyrnartæki hjá Heyrnar- og talmeinastöð er frá því að vera um 31 þús. kr. og upp í 80 þús. kr. á tæki. Að auki verður að reikna með kostnaði viðkomandi einstaklings vegna læknisskoðunar og heyrnarmælingar. Almennur sjúklingur greiðir rúmlega 4 þús. kr. fyrir slíka þjónustu en lífeyrisþegi, barn og einstaklingur með afsláttarkort rúmlega 1.600 kr.

Að því gefnu að ríkið taki þátt í kostnaði við heyrnartækið sem nemur 28 þús. kr. verður kostnaður einstaklings við að kaupa eitt heyrnartæki hjá Heyrnar- og talmeinastöð á bilinu 7.000--56.000 kr. Fyrir almenna sjúklinga er hann á bilinu 4.000--53.600 fyrir lífeyrisþega, fyrir almenna sjúklinga með afsláttarkort á bilinu 3.500--52.000, en um 80% af skjólstæðingum stöðvarinnar eru lífeyrisþegar og börn.

Heildarverð á heyrnartæki frá fyrirtækinu Heyrnartækni ehf. er á bilinu 75--138 þús. kr. á heyrnartæki þegar keypt eru tvö heyrnartæki en fyrirtækið veitir afslátt ef keypt eru tvö tæki.