Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:53:06 (4204)

2004-02-12 14:53:06# 130. lþ. 63.22 fundur 519. mál: #A söfnunarkassar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins bæta því við í tilefni af orðum hv. fyrirspyrjanda um það að hann vilji helst að þessir kassar hverfi alveg úr samfélagi okkar, að þá tel ég að það skref verði ekki stigið. Það verður líka að líta til þess að á þessu sviði hefur orðið ákveðin alþjóðavæðing á undanförnum árum eins og á öllum öðrum sviðum og hér er um það að ræða líka að hafa þessa starfsemi hér heima fyrir, ekki síður en að standa frammi fyrir því að menn geti tekið þátt í því að fá útrás fyrir fíkn sína á þessu sviði með því að fara inn á netið og aðra slíka miðla sem fyrir hendi eru núna. Ég tel því að það verði aldrei þannig að við búum svo um hnúta í okkar þjóðfélagi að þessi starfsemi hverfi alveg úr því sem komið er og þess vegna sé ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að söfnunarkassarnir eða þessir spilakassar hverfi úr samfélagi okkar.

En ég ítreka það sem ég sagði. Ég tel að setja eigi þessar reglur og það beri að setja þessar reglur. Og það er fagnaðarefni að nú eru komin samtök sem unnt er að eiga samstarf við um efni reglnanna þegar til þess starfs er gengið.