Flatey á Mýrum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:05:54 (4210)

2004-02-12 15:05:54# 130. lþ. 63.24 fundur 478. mál: #A Flatey á Mýrum# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég legg fram þessa fyrirspurn er tvíþætt. Annars vegar er áhugi innan sveitarfélagsins Hornafjarðar á að við stofnun fyrirhugaðs Vatnajökulsþjóðgarðs verði eign ríkisins í jörðinni Flatey og samliggjandi jörðum, á Mýrum og Hornafirði, höfð innan marka þjóðgarðsins og sem hluti af honum. Um þetta ályktaði bæjarstjórn Hornafjarðar í ágúst sl. og í bókuninni kemur það fram, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Bæjarstjórnin telur að vel fari saman hugmyndir um þjóðgarð með góðu aðgengi almennings og eðlilegum nytjum á jörðinni, svo sem búskap og veiðum, eins og hefð er fyrir. Reyndar telur bæjarstjórnin það grundvallarskilyrði fyrir þessum framgangi að áðurnefndar nytjar séu leyfðar.

Umrætt landsvæði yrði óneitanlega mikils virði fyrir væntanlegan þjóðgarð, auka fjölbreytni með tilliti til náttúru og jarðfræði og skapa meiri og betri möguleika á gönguferðum á jökul og nágrenni hans.``

Í öðru lagi er ástæða fyrirspurnarinnar aðgengi hreindýraveiðimanna til að fella úthlutaðan hreindýrakvóta á jörðinni á veiðitíma hreindýranna og í raun á nærliggjandi jörðum. Inn á svæðið sækja hreindýr en leigutaki hefur lokað svæðinu og bannað allar hreindýraveiðar.

Nú háttar svo til að hreindýraveiðar lúta ákveðnum lögum og reglugerðum um stjórn hreindýraveiða og um skiptingu arðs af þeim. Undir þetta ákvæði hafa jarðeigendur á Austurlandi beygt sig og hefur því eftir margra ára ósætti og erfiðleika náðst nokkuð breið sátt um hreindýraveiðarnar og um úthlutun á arði. Því veldur það stjórnendum veiðanna miklum erfiðleikum þegar ekki er hægt að komast inn á eitt veiðisvæði og fella dýrin á veiðitíma.

Tiltekinn hreindýrakvóta þarf að fella á svæðinu til að halda stofninum niðri en þegar þau eru felld utan veiðitímans renna arðgreiðslur til rannsókna á vegum Náttúrustofu Austurlands. Bændur og sveitarfélagið verða því af arðgreiðslum af felldum dýrum. Á síðasta ári voru felld um 20 dýr á svæðinu með þessum hætti. Það varð því, frú forseti, að bíða eftir því að veiðitímanum lyki og sitja um að veiða dýrin þegar þau fóru út af svæðinu. Það er mikilvægt að halda hreindýrastofninum niðri svo hann leiti ekki í vesturátt, yfir í Öræfasveit og valdi hugsanlegu garnaveikismiti í sauðfé í Öræfasveitinni. Garnaveiki hefur verið í fé á Mýrum en ekki í Öræfasveit en þar hafa bændur haft nokkrar tekjur af sölu líflamba.

Nú háttar svo til að sá hluti jarðarinnar sem er ræktaður, svo og fasteignir, er í einkaeign og hefur eigandi þessa hluta jarðarinnar haft ríkishluta jarðarinnar á leigu undanfarin 10 ár, fyrst til 10 ára en síðan hefur leigusamningurinn verið framlengdur til skemmri tíma í senn.

Afgjöld ríkisjarða eru á forræði landbrn. og því er ástæða til að spyrja ráðherra um leigutekjur og upplýsa með þeim hætti hvaða tekjumissir yrði fyrir jarðasjóð ef leigusamningur yrði ekki framlengdur.