Útflutningur á lambakjöti

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:15:57 (4213)

2004-02-12 15:15:57# 130. lþ. 63.25 fundur 555. mál: #A útflutningur á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Fyrir fáeinum dögum kvaddi einn af sauðfjárbændum þessa lands sér opinberlega hljóðs og vakti það mikla athygli. Bóndinn sagði orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ég velti því fyrir mér hvort það er ekki líklegra til árangurs að markaðssetja íslensk þorrablót en að eyða milljónatugum í að reyna fyrir sér á erlendum mörkuðum með sölu á lambakjöti.

Í ár eru 30 ár síðan við hjónin hófum sauðfjárbúskap. Öll þau ár hefur sú von verið alin í brjósti að hægt væri að selja lambakjöt til útlanda. Vissulega hefur mikið verið selt en á lágu verði. Miðað við svipaða framleiðslu og innanlandsneyslu munum við ekki eiga annan kost en að selja lambakjöt áfram úr landi þar sem útflutningsskyldan er nú komin hátt í 40%.``

Hæstv. forseti. Þetta var ekki venjulegur sauðfjárbóndi sem þarna talaði. Það var sauðfjárbóndi úr hæstv. ríkisstjórn, samflokksmaður hæstv. landbrh., hæstv. byggðamálaráðherrann sjálfur Valgerður Sverrisdóttir.

Orð sauðfjárbóndans og ráðherrans gefa tilefni til umræðu og gera kröfu um skýringar á stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar málefni sauðfjárbænda. Sjálfum finnst mér ekki hægt að skilja ummæli sauðfjárbóndans og ráðherrans úr ríkisstjórninni öðruvísi en yfirlýsingu um að rétt sé að hætta kostnaðarsömum tilraunum ríkisstjórnarinnar til útflutnings á lambakjöti. Af því mundi að sjálfsögðu leiða að aflétta yrði hinni fáránlegu útflutningsskyldu sem ríkisstjórnin hefur lagt á bændur í þessu landi. En jafnframt því að leysa bændur undan þeirri skyldu yrði að leggja á bændur sjálfa þá ábyrgð að selja kjöt sitt.

Yfirlýsingin sem ég hef vitnað til og ráðherra í ríkisstjórninni gefur hlýtur að þýða að við ríkisstjórnarborðið fari fram umræða um að þörf sé á stefnubreytingu í þessu máli og því fagna ég að sjálfsögðu. En ég sé ástæðu til að leita svara við eftirfarandi spurningum hjá hæstv. landbrh.:

1. Hver verður kostnaður ríkisins á þessu ári af sölu á lambakjöti erlendis?

2. Hvaða erlendir markaðir eru líklegir til að skila bændum viðunandi afurðaverði?

3. Í hverju má helst sjá árangur af afskiptum ríkisins af sölu á lambakjöti?

4. Hefur orðið stefnubreyting í ríkisstjórninni hvað varðar útflutning á lambakjöti og ef svo er, hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málinu?