Útflutningur á lambakjöti

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:19:01 (4214)

2004-02-12 15:19:01# 130. lþ. 63.25 fundur 555. mál: #A útflutningur á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurningin er: ,,Hver verður kostnaður ríkisins á þessu ári af sölu á lambakjöti erlendis?``

Svar mitt er þetta: Ríkið ber engan beinan kostnað af sölu lambakjöts erlendis.

Önnur spurning var:

,,Hvaða erlendir markaðir eru líklegir til að skila bændum viðunandi afurðaverði?``

Svarið er þetta: Á síðustu 4--5 árum hefur verið lögð áhersla á að markaðssetja dilkakjöt ferskt og niðurhlutað sem árstíðabundna hágæðavöru. Þeir markaðir sem einkum hefur verið unnið á eru vesturströnd Bandaríkjanna og lönd í Evrópu, Danmörk, Þýskaland og Ítalía. Þessi aðferð sem nú hefur verið tekin upp lofar á margan hátt góðu hvað lambakjöt varðar. Verð hefur verið að stíga og ef dollarinn væri eins og hann var skráður fyrir einu ári væri verðið sambærilegt því sem gerist á innanlandsmarkaði. Þarna eru menn að þróa sig á viðkvæmum mörkuðum og hafa stigið skynsamleg skref. Þessu hefur fylgt að menn selja Ísland í leiðinni og íslenskar afurðir eins og í Whole Foods búðunum. Ferðamenn koma til landsins út á upplýsingar og myndir af landinu.

Margt má segja hvað landbúnaðinn varðar, hvort sem það snýst um hestinn, mjólkurvörur eða annað, kaupmenn vilja fá þessar vörur til sölu. Þeir eru þar með að leggja áherslu á sína pólitísku stefnu á móti verksmiðjum. Þeir vilja fjölskyldubúskap, hreina náttúru og vilja tengjast Íslandi sérstökum böndum í þessu efni. Þeir hafa komið hingað, farið í smalamennsku, kynnst sauðburði o.s.frv. Þetta er hin nýja stefna sem núna er fylgt.

Þriðja spurning: ,,Í hverju má helst sjá árangur af afskiptum ríkisins af sölu á lambakjöti?``

Óbein afskipti af sölu ríkisins á lambakjöti eru einkum í því fólgin að á árunum 1995--2002 var í gangi átaksverkefni um vöruþróun og sölu á íslenskum afurðum undir merkjum hollustu, hreinleika og sjálfbærrar þróunar á innlendum og erlendum mörkuðum, sbr. lög nr. 27/1995. Eitt af því sem átaksverkefni þetta leiddi af sér var kynning og aðstoð við markaðssetningu á dilkakjöti erlendis. Þá hefur framkvæmdanefnd búvörusamninga veitt fyrirtækjum sem vinna að útflutningi dilkakjöts stuðning. Á árinu 2002 nam stuðningur þessara tveggja aðila við markaðsfærslu á dilkakjöti erlendis 14,4 millj. kr. Í samningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands eru samkvæmt búnaðarlögum veittar 25 millj. kr. árlega, árin 2003--2007, til kynningar á íslenskum landbúnaðarvörum erlendis. Hluta af þessum fjármunum var á síðasta ári varið til kynningarverkefna og útflutnings á lambakjöti. Uppgjör liggur ekki fyrir. Beinn og óbeinn árangur af þessum aðgerðum er m.a. aukin þekking á mörkuðum erlendis, því hvaða kröfur þarf að uppfylla vegna sölu á viðkomandi markaði og viðskiptasambönd sem þar hafa náðst.

Síðan er spurt hvort orðið hafi stefnubreyting í ríkisstjórninni.

Útflutningur á dilkakjöti er alfarið á ábyrgð bænda og sláturleyfishafa, og hefur verið það. Þar er engin stefnubreyting. Bændur hafa í samningum sínum sjálfir beðið um útflutningsskyldu. Það er samningur sem þeir hafa samþykkt og einnig útflutningsskylduna sem hér er gagnrýnd. Þar segir reyndar að ráðherra ákvarði hver hún sé. Aðkoma ríkisins er engin önnur en sú sem um getur í svari við þriðju spurningu.

Stefna ríkisins hefur verið nær óbreytt allt frá árinu 1991 hvað það varðar. Þá voru útflutningsuppbæturnar felldar niður. Þær hafa ekki verið teknar upp en þetta er hin nýja þróun sem orðið hefur í gegnum Áformssjóðinn og samstarf bændanna við hann.

Svo vil ég segja, varðandi það sem hv. þm. minntist á, að þó að blessuð þorrablótin séu góð og hugleiðing hæstv. viðskrh. skemmtileg þá held ég samt sem áður að þorramaturinn sé góður til heimabrúks en lambakjötið vekur mikla athygli. Við eigum þar dálitla von um að bændur geti þróað það áfram til að auka frelsi sitt bæði til framleiðslu og atvinnu í landinu.

Það sem skemmtilegast er kannski er að nú förum við með kjötið meira unnið út, frá stórfyrirtækjunum á landsbyggðinni. Það skapar atvinnu eins og á Húsavík, hjá Sláturfélagi Suðurlands o.s.frv. Þetta er heilmikið verkefni sem ber að virða og þróa áfram.