Skýrsla forsætisráðherra um launamun kynjanna

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:02:26 (4222)

2004-02-16 15:02:26# 130. lþ. 64.1 fundur 321#B skýrsla forsætisráðherra um launamun kynjanna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. í framhaldi af því að nefnd sem hann skipaði síðla árs 2000 um að skoða efnahagsleg völd kvenna hefur nú skilað áliti rúmum þremur árum eftir að hún var sett á, allviðamiklu verki þar sem m.a. er byggt á launakönnun sem unnin var á vegum nefndarinnar á árinu 2002, ítarlegri viðhorfskönnun um viðhorf Íslendinga til jafnréttismála og að síðustu voru teknar saman ýmsar tölur um hlut kvenna í íslensku efnahagslífi. Allar þessar upplýsingar eru fróðlegar en segja má að meginniðurstaðan komi ekki á óvart og sé ekkert nýtt að staðfestur er umtalsverður kynbundinn launamunur, að áhrif kvenna í íslensku efnahagslífi hvað varðar t.d. setur í stjórnunarstörfum eru lítil og verulega vantar upp á að hlutur þeirra sé eins og við vildum sjá hann væntanlega í jafnréttissinnuðu þjóðfélagi.

Nefnd þessi starfaði á vegum hæstv. forsrh. og var skipuð á grundvelli framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Því er nærtækt að spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig hyggst ríkisstjórnin fylgja starfi nefndarinnar eftir? Verður tillögum nefndarinnar sem settar eru fram í lok skýrslunnar um aðgerðir til úrbóta hrint í framkvæmd? Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig metur hann stöðuna í þessum efnum í ljósi skýrslunnar? Er hann sáttur við stöðu jafnréttismála á Íslandi á sínu 13. ári í embætti sem forsrh.?