Orion-þotur

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:17:23 (4234)

2004-02-16 15:17:23# 130. lþ. 64.1 fundur 323#B Orion-þotur# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þær flugvélar sem hv. þm. nefndi varða eftirlit með kafbátum á Norður-Atlantshafi, svokallaðar Orion-vélar. Eftir því sem best er vitað hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort þessar vélar skuli fara frá Íslandi. Hins vegar hefur þessum vélum verið fækkað allverulega af hálfu Bandaríkjamanna. Þær eru orðnar mjög gamlar og úreltar og gert er ráð fyrir því að ný kynslóð slíkra flugvéla taki við hlutverki þeirra á næstu árum. Þessar vélar hafa verið fluttar til oftar en einu sinni. Nú síðast höfðu þær hlutverk í tengslum við átökin í Írak en okkur hefur ekki borist tilkynning um að þær fari endanlega frá Íslandi.

Hitt er annað mál, að það er ekki jafnrík ástæða til að fylgjast með ferðum kafbáta og áður var. Þetta mál er ekki í neinu sambandi við loftvarnir Íslands. Það er annað mál sem ríkisstjórnin hefur haft mjög skýr sjónarmið í og komið skýrt fram á Alþingi. Við væntum svara frá Bandaríkjamönnum um þetta mál en við höfum krafið þá skýringa á því hvað hér er á ferðinni. (SJS: Er ekki vont að kafbátarnir séu eftirlitslausir?)