Orion-þotur

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:21:41 (4237)

2004-02-16 15:21:41# 130. lþ. 64.1 fundur 323#B Orion-þotur# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að ég og hæstv. utanrrh. erum að tala í kross. Ég er ekki að tala um varnarþarfir Bandaríkjanna að öðru leyti en að þær spila svo stórt hlutverk í því hvaða samningar verða á milli okkar og þeirra í framtíðinni ef við viljum gera samninga við þau. Það eru viðræður í gangi og út frá þeim viðræðum yrði slík ákvörðun tekin.

Það er greinilegt að pólitískur stuðningur Íslands hefur ekki dugað til að halda óbreyttri stöðu gagnvart Bandaríkjunum. Ég bendi á það. Maður verður að vita hver staðan er til að geta horft fram á veginn. Ísland hefur greinilega mjög litla þýðingu fyrir varnarstefnu Bandaríkjanna.

Hæstv. utanrrh. nefndi að loftvarnir væru aðalatriðið hjá okkur. Já, en þessar þotur og loftvarnirnar sem þeim fylgja hanga á eftirlitsvélunum sem Bandaríkjaher hefur viljað hafa hér. Það eru miklar breytingar í farvatninu og við fáum ekki einu sinni áframhald viðræðna um varnarsamstarfið.