Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:38:15 (4248)

2004-02-16 15:38:15# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Á þskj. 821 birtist svar hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni og hv. þm. Jóns Bjarnasonar um skattgreiðslur í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Sérstaka athygli vakti svar hæstv. ráðherra við 5. tölul. fyrirspurnar okkar en spurningin og svar ráðherra hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Hver eru helstu álitamál og vandamál sem uppi eru eða upp kunna að koma að mati fjármálaráðuneytisins í sambandi við skattalega meðferð mála í fyrrgreindum tilvikum og tengd umsvifum vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar`` í heild?

Svarið er eftirfarandi:

,,Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna annarra framkvæmda af þessari stærðargráðu.``

Svo óheppilega vildi til fyrir hæstv. fjmrh. að dagana eftir að svarinu var dreift fjölluðu fjölmiðlar um það að útsvarstekjur hafi ekki skilað sér til sveitarfélaganna eystra, þ.e. Norður-Héraðs og Fljótsdalshrepps, nema að örlitlu leyti. Jónas Þór Jóhannsson, sveitarstjóri Norður-Héraðs, lýsir í viðtali við Fréttablaðið um þetta leyti að sveitarfélagið hafi kvartað við alla málsmetandi aðila á þessu sviði, þ.e. skattstjórann í Reykjavík, skattstjórann eystra, ríkisskattstjóra og fjmrh. Þegar af þessum sökum átti fjmrh. að vera vel ljóst að framkvæmdin gekk ekki snurðulaust og því ekki að svara eins og hann gerði.

Fimmta spurningin sem ég las áðan sýnir að spurt var um framkvæmd skattheimtunnar, ekki aðeins lagaleg atriði. Ekki batnar svo staðan þegar í ljós kemur að til viðbótar eru deilur um lagaleg atriði og þau mál hafa verið í þófi milli Impregilo og skattyfirvalda frá því í ágústmánuði sl. Í Morgunblaðinu 11. febrúar kemur fram hjá Ómari R. Valdimarssyni, talsmanni fyrirtækisins, að það hafi ítrekað óskað eftir því frá því í ágúst að fá fundi um þessi mál við skattyfirvöld. Að staðgreiðsluskylda skatta erlendra fyrirtækja á Íslandi og starfsmanna þeirra sé óljós að þeirra mati og þeir hafi óskað eftir viðræðum um það. Enn fremur kemur fram að skattasérfræðingar Impregilo telja að erlendum fyrirtækjum sé ekki skylt að annast innheimtu staðgreiðslu og Impregilo telur sig þaðan af síður vera í ábyrgð fyrir erlenda undirverktaka og þjónustufyrirtæki segir þar. Þar er væntanlega átt m.a. við starfsmannaleigur.

Í Fréttablaðinu á laugardaginn var, þann 14. þessa mánaðar, kemur fram hjá lögmanni fyrirtækisins, Þórarni V. Þórarinssyni, að ágreiningur um greiðslu tryggingagjalds sé á leið til dómstóla. Þórarinn staðfestir einnig að Impregilo sé afar ósammála þeirri túlkun ríkisskattstjóra að þeir beri ábyrgð á staðgreiðslu manna á vegum starfsmannaleigufyrirtækja eða undirverktaka sem vinna við ræstingar, svo dæmi sé tekið. Í sömu frétt kemur fram að Impregilo hyggist standa skil á staðgreiðslu allflestra starfsmanna sinna fljótlega eftir helgina, þ.e. í þessari viku. Þá er spurningin: Eru eða verða það fyrstu skattgreiðslur fyrirtækisins? Eru skattgreiðslur þeirra sem eru á vegum starfsmannaleigna og undirverktaka enn þá í óvissu? Hverju sætir að þó að Hagstofan hafi gefið út tæpar 800 kennitölur að beiðni Impregilo fyrir erlenda starfsmenn eru aðeins um 70 skráðir búsettir við Kárahnjúka í dag og voru aðeins 44 1. desember? Áætlað er að þar dvelji nú yfir 500 erlendir starfsmenn. Hvert fer útsvar allra hinna, þ.e. ef einhverjir skattar eru eða hafa verið greiddir af þeim? Hve margir erlendir starfsmenn eru horfnir úr landi aftur án þess að hafa borgað eina krónu í skatt á Íslandi? Er sá orðrómur e.t.v. réttur, sem ítrekað heyrist, að hlutunum sé þannig fyrir komið að menn borgi heldur enga skatta erlendis?

Eðlilega, herra forseti, mótmælti ég svari hæstv. fjmrh. Það er í engu samræmi við veruleikann eins og glöggt kemur fram af því sem ég hef farið yfir. Ráðherra gerði betur í því að vera ekki eins önugur í viðbrögðum sínum og hann var þegar þetta mál kom upp en snúa sér að því að svara fyrir um hvernig framkvæmdin stendur, hvaða vandamál hafa komið þar upp og hvernig á að bæta úr þeim. Ég hef aldrei svo mikið sem ýjað að því að fjmrh. væri að hjálpa fyrirtækinu við að komast undan skattgreiðslum þannig að hæstv. ráðherra getur sparað sér að æsa sig út af því. En svar ráðherra við fyrirspurn okkar Jóns Bjarnasonar var og er í engu samræmi við veruleikann. Það hlýtur hæstv. fjmrh. að verða að viðurkenna. Úr því á hann að bæta og einbeita sér svo að því að koma málunum í lag.