Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:10:12 (4260)

2004-02-16 16:10:12# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel að ég hafi svarað öllum spurningum, bæði hér í dag og eins hinni skriflegu fyrirspurn, efnislega og málefnalega. Og ég tel að þetta mál liggi alveg skýrt fyrir. Það breytir engu þó að skattaðili geri athugasemd við niðurstöðu skattyfirvaldanna hvað varðar skyldu hans til að halda eftir staðgreiðslu. Málið fer svo auðvitað í eðlilegan farveg, sem ég leyfi mér að kalla svo, innan skattkerfisins ef upp kemur ágreiningur. Þetta þekkja allir menn. Þetta þekkir lögmaðurinn með sína litlu lögmannsstofu sem hann kallaði því hann er vanur að reka slík mál, eins og lögmenn gera gjarnan. (SJS: En ef launin eru greidd í Portúgal?) Það geta verið einhver álitamál hvað slíkt varðar. Ef ég fengi frið fyrir þingmanninum, ef hann hættir að kalla hér og æpa fram í sem er nú hans háttur hér, gæti ég kannski haldið áfram að svara.

Hv. þm. Kristján Möller spurði hvað staðið hefði um tryggingagjaldið í útboðsgögnunum. Nú man ég það auðvitað ekki nákvæmlega en ég tel alveg víst að skilmerkileg grein hafi verið gerð fyrir öllum sköttum hér á Íslandi, þar með talið tryggingagjaldinu sem ég eiginlega botna ekkert í að nokkur maður skuli halda fram að þetta fyrirtæki þurfi ekki að greiða eins og aðrir atvinnurekendur á Íslandi. Ef þeir eru annarrar skoðunar láta þeir á það reyna samkvæmt þeim farvegum og úrræðum sem fyrir hendi eru í lögum.

Herra forseti. Málið er einfalt. Skattskyldan er fyrir hendi. Þessu fyrirtæki ber að standa skil á opinberum gjöldum eins og öllum öðrum. Og okkur ber að standa þannig að stjórnsýslunni að allir fái sitt, þar á meðal sveitarfélögin vissulega, og aðrir sem hér eiga hlut að þessu máli. (Gripið fram í: En hvers vegna hefur það ekki borgað neitt?) (Gripið fram í: Þú borgar.)