Málefni aldraðra

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:38:29 (4263)

2004-02-16 16:38:29# 130. lþ. 64.3 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því að hér er ákveðinn áfangi í því að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem urðu til í samstarfsnefnd um málefni aldraðra með fulltrúum ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Það sem mér finnst jákvætt við frv. við fyrstu sýn er að verið er að styrkja þau ákvæði laganna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustunnar og að skýra hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra í þessum efnum. Það er af hinu góða, sýnist mér við fyrsta yfirlestur.

Ég hef hins vegar verulegar efasemdir varðandi ákvæðin um leigugreiðsluna og þessa skiptingu sem er milli ríkis og sveitarfélaga því að ég hefði talið skynsamlegt að menn stigju það skref til fulls að færa öldrunarþjónustuna alla, annaðhvort sé hún hjá ríki eða hjá sveitarfélögum en ekki tvískipt verkefni. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort sveitarfélögin hafi komið að þessu samráði, þeirri niðurstöðu sem er í frv. og snýr beint að þeim.

Við höfum, þótt á öðrum sviðum sé, haft reynslu af því þegar um er að ræða byggingar einkaaðila sem síðan eru teknar á leigu, þó um útboð sé að ræða og gerðir samningar, bæði hjá einstaka sveitarfélögum og einnig er fyrirhugað að ganga frá slíkum samningum hjá ríkinu þar sem kostnaðurinn er mjög mikill og mun meiri en eðlilegt gæti talist. Ég held að við í nefndinni þurfum að fara mjög vel yfir það hver reynslan er, bæði hjá sveitarfélögum og þar sem ríkið hefur verið með húsnæði á leigu undir ákveðna starfsemi.

Í athugasemdum við lagafrv. þar sem talað er um skipan í samstarfsnefnd um málefni aldraðra er sú breyting gerð að annar fulltrúi sem er skipaður án tilnefningar verði starfsmaður öldrunarmála í heilbr.- og trmrn. og einnig er verið að skýra hvar kostnaðurinn við störf nefndarinnar fellur. Í lok þeirra málsgreinar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki eru lagðar til aðrar breytingar á skipan nefndarinnar en talið er að breytingar þessar`` --- þ.e. að annar fulltrúinn verði starfsmaður öldrunarmála í heilbr.- og trmrn. --- ,,leiði m.a. til aukins frumkvæðis heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í uppbyggingu öldrunarstofnana.``

Það má vel vera að sú verði raunin en í þessu tiltölulega fámenna ráðuneyti --- miðað við umfang starfseminnar er þar ekki fjöldi starfsmanna --- hefði maður haldið að frumkvæðið væri til staðar, hvort sem starfsmaðurinn kæmi af þessu sviði eða ekki. Hins vegar er starfsmaður öldrunarsviðs örugglega í betri tengslum við það sem er að gerast hverju sinni, þ.e. í öldrunarmálum, og hefur því ef til vill meiri skilning á því en ýmsir aðrir.

Eins er sú breyting að sett verði ákvæði um að fjármagn verði veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila nýmæli sem auðvitað þarf að fara mjög rækilega yfir í nefndinni.

Síðan er í fylgiskjölum farið aðeins yfir skilmálablöð, þ.e. drög að skilmálablöðum, bæði varðandi dagvistun og dvalarheimili, hjúkrunarheimili. Þar þurfum við líka að fá álit þeirra sem standa að þessum rekstri, álit þeirra á þeim breytingum sem hugsanlegar eru þar. Ég hef ekki farið rækilega ofan í hvern lið en hefði gjarnan viljað sjá að enn frekar yrði skerpt á eftirlitshlutverkinu. Í gildandi lögum er kveðið nokkuð skýrt á um það hvert skuli vera hlutverk dvalarheimila, hvaða þjónustu eigi að veita á dvalarheimilum, hvaða þjónustu eigi að veita á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Eins og ég hef áður sagt við hæstv. ráðherra veita þessi heimili vítt um landið mjög mismunandi þjónustu. Sums staðar er t.d. boðið upp á það að húsgögn eru í herbergi sem einstaklingur dvelur í en annars staðar verða einstaklingarnir að leggja allt með sér, fá einungis herbergið sjálft.

Í nokkrum tilvikum veit maður til þess að það eru ekki starfandi hjúkrunarfræðingar, hjúkrunarfræðingar koma ekki á viðkomandi dvalarheimili og ekki heldur sjúkraliðar. Læknir kemur einu sinni í viku. Eins er með það sem lýtur að dægradvöl eða endurhæfingu þeirra sem dvelja á dvalarheimilum, þar þarf að skerpa eftirlitshlutverkið. Hvort sem það er gert innan ráðuneytis eða með öðrum hætti held ég að það sé mjög nauðsynlegt að hugað verði að því með fjárveitingum til þessarar starfsemi að menn geri ráð fyrir því að hægt sé að sinna því eftirliti að öldrunarstofnanir veiti þá þjónustu sem þær eiga að gera lögum samkvæmt. Á því hefur verið misbrestur, kannski fyrst og fremst vegna þess að fjármagn hefur vantað og þá náttúrlega starfsfólk í heilbrrn. Ég tel þetta vera verðugt verkefni heilbr.- og trn. að skoða það að láta gera samanburð á því hvaða þjónusta er veitt á hverjum stað og hvar menn fara eftir lögum, sérstaklega varðandi dvalarheimilin. Hjúkrunarheimilin eru trúlega með skýrari kröfur og meira eftirlit en það er misbrestur á varðandi dvalarheimilin. Ég beini því til hæstv. ráðherra að við fáum skýra greinargerð frá ráðuneytinu inn í nefndarstarfið um hvernig staðið sé að þessu eftirliti.

Við fyrstu sýn er fyrst og fremst verið að styrkja þessi ákvæði laga um uppbyggingu öldrunarþjónustunnar. Það er af hinu góða. Enn fremur er verið að skýra hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra í þeim efnum. En ég hef fyrirvara á þessari heimild til leigugreiðslna og eins gagnvart sveitarfélögunum, þeim atriðum sem lúta að kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga og leigugreiðslum. Ég sé ekki ástæðu til að eyða lengri tíma við 1. umr. því við eigum eftir að fá ítarlegar umsagnir um frv.