Málefni aldraðra

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:46:11 (4264)

2004-02-16 16:46:11# 130. lþ. 64.3 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu á frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Eins og fram kom í máli hans er hér verið að fylgja eftir samkomulagi samráðshóps um málefni eldri borgara sem settur var á laggirnar 19. nóv. 2002. Þessi samráðshópur gerði m.a. tillögur um breytt hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra og hér er verið að verða við þeim ábendingum sem þar koma fram. Ég tel að að meginuppistöðu séu þessar breytingar af hinu góða, sérstaklega finnst mér ánægjulegt að sjá að framlög úr framkvæmdasjóðnum til reksturs hjúkrunarheimila eigi að falla út, smá minnka á fáum árum, en það sem hefur verið gagnrýnt mjög í umræðum um fjárlögin er hið háa hlutfall af framlagi úr framkvæmdasjóðnum sem farið hefur í rekstur hjúkrunarheimila. Það er því mjög ánægjulegt að sjá að sá þáttur eigi að falla út.

Eins tel ég það til bóta að mæta megi kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði og einnig að tekið sé inn nýtt ákvæði um viðhald húsnæðis dag-, dvalar- og hjúkrunarheimila. En eins og hv. 1. þm. Suðurk. set ég fyrirvara við þann lið sem snýr að heimild til þess að bjóða út og leigja húsnæði og rekstur hjúkrunarheimila eins opið og er í þessu frv.

Herra forseti. Ég geri persónulega, og eins er það stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, skýran greinarmun á því hvort verið er að reka dvalar- og hjúkrunarheimili á félagslegum grunni, og þar nefni ég DAS og Hrafnistu þar sem reksturinn á eingöngu að standa undir útlögðum kostnaði og ekki er verið að reka dvalar- og hjúkrunarheimili í ágóðaskyni, eða hvort verið er að bjóða út slíkan rekstur með hagnað í huga. Ég tel að heilbrigðisþjónustan og þá sérstaklega þjónusta aldraðra eigi að vera fyrir utan þá gróðahyggju sem kemur nú fram á mörgum sviðum.

Ég tel að í umfjöllun um frv. í hv. heilbr.- og trn. munum við fara vel yfir þetta og hvort einhver greinarmunur verði gerður á einkarekstri eða hvort verið sé að opna allar gáttir fyrir einkavæðingu á þessu sviði og við munum þá hugsanlega sjá fleiri Sóltúns-dæmi rekin eftir 2005 þar sem umtalsverður hagnaður á að skila sér til viðkomandi eiganda. Ég tel að við þurfum að skoða þetta vel í heilbr.- og trn.

Herra forseti. Ég held að það sé líka rétt að skoða vel skiptinguna á milli sveitarfélaga og ríkisins þegar farið er í byggingar á hjúkrunar- og dvalarheimilum eða þjónustumiðstöðvum. Því eins og hér kemur fram á þátttaka sveitarfélaga í uppbyggingu hjúkrunarheimila aldrei að vera minni en 15% af stofnkostnaði og þegar ríki og sveitarfélög byggja sameiginlega skal eignarhluti þeirra vera í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Stofnkostnaður er áætlaður samkvæmt ákveðnum stöðlum sem er viðurkenndur af ríkinu og á ekki bara við um hjúkrunarheimili eða heilsugæslustöðvar, heldur um aðrar opinberar byggingar eins og skóla en þeir staðlar fara svo ekki saman í mörgum tilfellum við raunveruleikann, þ.e. tilboð í verkið, og hefur sá kostnaður sem fellur til aukalega fallið á viðkomandi sveitarfélög. Því tel ég mikilvægt að við skoðum það líka hvort þarna er átt við raunverulegan stofnkostnað og þau tilboð sem koma í verkið eða hvort verið er að ganga út frá því módeli sem er lagt til grundvallar núna og getur hugsanlega verið víðs fjarri raunveruleikanum.

Ég nefni þetta hér þar sem eitt slíkt dæmi er í gangi í heimabyggð minni, Egilsstöðum, þar sem ekki hefur verið farið í viðbyggingu við Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem einmitt strandar á þessu, að tilboðið var hærra en byggingarstaðallinn sagði til um og mismunurinn lagður á sveitarfélagið sem það er þá ekki tilbúið að greiða og eiga óbreyttan eignarhlut. Ég tel að þetta verði líka að vera ljóst þegar við skoðum þetta.

En ég tel að að öðru leyti og við fyrstu sýn sé flest til bóta og vil seint trúa því að hæstv. heilbrrh. sé að galopna fyrir einkavæðingu í öldrunarþjónustunni eins og lesa mætti út úr frv., ef maður hefði ekki hlustað á hæstv. ráðherra lýsa öðru yfir oftar en einu sinni.