Málefni aldraðra

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:59:53 (4267)

2004-02-16 16:59:53# 130. lþ. 64.3 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:59]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Það sem hefur einkum verið rætt eru þau ákvæði frv. sem varða leigugreiðslur og einkaframkvæmd í byggingu hjúkrunarheimila. Hér er ekki um neina einkavæðingu að ræða heldur er hér opnað á leið, opnað á vissa fjölbreytni í því að byggja yfir þessa starfsemi og það er langt í frá að þar sé um neina einkaframkvæmd að ræða. Einnig er opnað á þá leið að semja við sjálfseignarstofnanir eða einkaaðila um að reka þessa starfsemi, en það er einnig langt í frá að þar sé um einkavæðingu slíkrar starfsemi að ræða.

Varðandi eftirlitshlutverkið sem hv. 1. þm. Suðurk. kom inn á er ég sammála því að það þarf að hafa auga með því. Það eru einkum dvalarheimilin sem hún nefndi og ég er sammála því að leggja þarf vinnu í það og vafalaust fjármuni líka að skerpa á þeirri starfsemi án þess að ég sé með nokkru móti að gera lítið úr því starfi sem unnið er á þessum stofnunum því að þar leggur fólk sig fram um að veita góða þjónustu.

En ég efast ekki um að heilbr.- og trn. mun fara vandlega yfir þetta mál og treysti nefndarmönnum mjög vel til þess og endurtek þakkir mínar fyrir góðar undirtektir við málið.