Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 17:08:27 (4271)

2004-02-16 17:08:27# 130. lþ. 64.4 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er kominn í okkar hendur gamall góðkunningi þingsins, frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Frumvarp svipaðrar gerðar var til umfjöllunar á vorþingi en var ekki afgreitt enda geysileg andstaða gegn því í þjóðfélaginu og einnig innan þingsins.

Hæstv. ráðherra staðfesti að þetta frv. væri svipað hinu fyrra en þó hefði verið tekið tillit til athugasemda sem þá bárust. Það hefur verið gert að mjög takmörkuðu leyti. Ég held að á engan sé hallað þótt sagt sé að sennilega hafi ítarlegasta greinargerðin borist frá BSRB. En athugasemdir frá þeim samtökum er ekki nema að mjög takmörkuðu leyti að finna í þessu frv. Þess sér ekki mjög víða stað í frv. að tekið hafi verið tillit til þeirra. Þó hefur það verið gert á stöku stað. Þar vísa ég í arðsemisheimildir.

Í fyrra frv. var heimilt að taka 7% arð út úr starfseminni en nú er hins vegar engin slík ákvæði að finna og reyndar tekið fram í frv. að ekki sé ætlunin að vatnsveitur séu gróðafyrirtæki. Fjármunir sem verða til í viðskiptum með vatnið eiga að fara til frekari uppbyggingar á vatnsveitunni. Ég tel þetta almennt til góðs þótt ég sé ekki þeirrar skoðunar að slíkt þurfi undir öllum kringumstæðum að vera sáluhjálparatriði, alls ekki. Ég hef stundum notað þá samlíkingu að ef við byggjum við olíulindir í jörðu þá væri ekki óeðlilegt að arður af olíusölunni rynni til sveitarfélagsins. En þá þarf líka að tryggja kirfilega að lindirnar yrðu um ókominn tíma í eigu sveitarfélagsins. Það á við um vatnið líka.

Meginmarkmið þessa lagafrv. er að auka sveigjanleika þannig að vatnsveitur á mismunandi svæðum í mismunandi sveitarfélögum geti stofnað til samstarfs sín á milli. Við höfum í seinni tíð orðið vitni að slíku samstarfi á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur verið að færa út kvíarnar norður eftir Vesturlandi. Um það er ekkert nema gott að segja í sjálfu sér. Ég hef fullan skilning á því að við þurfum að búa við lagaramma sem geri slíkt samstarf sveitarfélaganna gerlegt.

Mér finnst það áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og kannski þinginu öllu, þar með þeim sem hér stendur, að við skulum ekki hafa beint kröftum okkar að því að finna slíkt rekstrarform, slíkt skipulagsform. Við höfum sameignarfélög og byggðasamlög sem hafa t.d. af hálfu Reykjavíkurborgar verið nýtt í samstarfi við sveitarfélög á suðvesturhorninu. Ég vísa þar í slökkvilið, samstarf slökkviliðanna og einnig í almenningssamgöngurnar. Það eru byggðasamlög. Sorpa mun vera byggðasamlag, ef ég þekki það rétt. Orkuveitan starfar á grundvelli sameignarforms.

Hins vegar eru ákveðnir annmarkar á öllum þessum skipulagsformum. Ég hvet til þess að menn setjist yfir þetta. Ég tel að viðfangsefnið sé að finna löggjöf um rekstrarform sem auðveldi sveitarfélögum að stofna til samstarfs sín á milli um þjónustustarfsemi á borð við vatnsveitur, rafmagn, skolp og annað af því tagi.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að opna á þann möguleika í löggjöf að þessi starfsemi verði einkavædd. Ég vil nefna sem dæmi að Hollendingar íhuga að setja lög sem hreinlega banni sölu á vatnsbólum, vatnsveitum. Jafnframt vilja þeir hafa þennan möguleika fyrir hendi, að hægt sé að stofna hlutafélög eða annars konar samvinnuform um starfsemina. Ég held að það sé ekki búið að festa slíkt frumvarp í lög í Hollandi en það hefur legið fyrir þinginu þar um nokkurra mánaða skeið.

Þetta frv. hefur ýmsa mjög alvarlega galla. Þótt orðið hafi nokkur framför varðandi arðgreiðslurnar þá hefur orðið afturför á öðrum sviðum. Til dæmis er talað um að fela félögum starfrækslu vatnsveitna. Þar eru engir fyrirvarar hafðir á. Í fyrra frv. var kveðið á um að hægt væri að gera þetta tímabundið. Nú er það horfið út úr frumvarpstextanum. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað valdi þessu: Hvers vegna er þetta horfið úr textanum?

[17:15]

Í Evrópu þar sem vatnsveiturnar hafa verið einkavæddar hefur verið allur gangur á þessu. Í sumum tilvikum hefur vatnið verið einkavætt þannig að fyrirtæki sem fær yfirráð yfir vatninu, eignast vatnsbólin og allan grunnbúnað. Í öðrum tilvikum taka fyrirtækin slíkt yfir. Ég hefði talið að þarna hefði þurft að skjóta inn ákveðnum varnagla.

Hvað skýrir þessa lagasmíð og hvað hefur einkennt lagasetningu sem lýtur að vatnsveitum? Ég held að óhætt sé að segja að leit að skammtímalausnum einkenni lagasmíð á þessu sviði. Það er mjög bagalegt að löggjöf um vatnsveitur heyri undir tvö ráðuneyti, annars vegar undir félmrn. og hins vegar undir iðnrn. Iðnaðarráðuneytið hefur haft forgöngu um lagabreytingar, iðulega að kröfu einstakra orkuveitna. Má þar nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Norðurorku og Hitaveitu Suðurnesja. Yfirleitt hefur þetta gerst þannig að löggjafinn er að bregðast við þróun sem þegar hefur átt sér stað en þessi fyrirtæki og stofnanir hafa í raun knúið fram. Þá hafa iðnrn. og hæstv. iðnrh. komið með frv. til að bregðast við þeirri þróun. Þannig hefur orðið til mjög gölluð lagasmíð, mjög gölluð og mótsagnakennd lagasmíð.

Síðan er hér verið að gera tilraun til að draga upp heildstæða lausn, en í raun hefði hún þurft að vera miklu yfirgripsmeiri. Hún hefði þurft að spanna allan málaflokkinn. Ég þykist vita að félmrn. telji sig hafa það til málsbóta að þarna sé verið að koma í veg fyrir frekari vinnubrögð af þessu tagi.

Annað sem fram kom reyndar í máli hæstv. félmrh. áðan er nokkuð sem við höfum heyrt svo sem áður og það mjög oft í umræðunni sl. vor, þ.e. að í rauninni sé ekkert verið að gera annað en að heimila sveitarstjórnum að breyta þessum stofnunum í hlutafélög, að ráðuneytið sé í raun ekki að hafa forgöngu um slíkt heldur sé það einvörðungu að veita heimild. Þá hafa menn spurt í framhaldinu: En er það ekki eðlileg lýðræðisleg krafa af hálfu sveitarfélaganna að þau fái að ráða hvaða fyrirkomulag sé við lýði? Ég segi nei. Ég segi að það eigi ekki að vera þannig.

Mín skoðun er sú að það sé slíkt grundvallaratriði að tryggja samfélaginu aðgang að drykkjarvatni um ókominn tíma að það eigi ekki að vera háð duttlungum sveitarstjórnar sem situr þetta fjögur, átta, tólf árin. Víða er um það rætt núna að festa í stjórnarskrá þjóðríkjanna að vatnið skuli vera almannaeign og að ekki eigi að vera hægt að ráðstafa því á markaði. Þess vegna á það ekki að vera háð ákvörðun sveitarstjórnar að ráðstafa drykkjarvatni um ókominn tíma og á óafturkræfan hátt. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði.

Síðan þykjast menn hafa ákveðnar varnir og ákveðna varnagla neglda í frv., t.d. þann að það félag sem fái rekstrarheimildina í hendur eða fái þessa starfsemi í hendur skuli vera í meirihlutaeign ríkis og sveitarfélaga, að fyrirtækið eða félagið skuli vera í meirihlutaeign ríkis eða sveitarfélaga. Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að tryggt sé að almannahagsmunir komi til með að vega þar þyngst? Ég held ekki. Ég held ekki, vegna þess að þessir eigendur geta verið margir og misjafnlega burðugir. Ríki og sveitarfélög geta í sameiningu vissulega átt 52% í slíkri vatnsveitu. En spurningin snýst ekki um það heldur um hitt: Hvar liggur ráðandi hlutur? Við getum alveg ímyndað okkur það að eignarhluturinn sé hjá ríki og þremur, fjórum hugsanlega illa stöddum sveitarfélögum og síðan 40% hjá Coca Cola. Það er alveg til í dæminu.

Þessi lagaklásúla heldur því að mínum dómi ekki. Ég tel að þetta sé ákvæði sem þurfi að setjast yfir og endurskoða.

Reyndar virðist margt í frv. stangast á við lög og ákvæði annarra laga. Vísa ég þar t.d. til sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Þar segir í 64. gr., með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal á hverjum tíma tryggja umráðarétt yfir fasteignum sem eru nauðsynlegar til að lögboðin verkefni sveitarfélagsins verði rækt.``

Nú spyr ég: Er ekki með þessu lagafrv. verið að opna á að þessum sömu fasteignum verði ráðstafað út úr eignarhendi eða af eignarhendi sveitarfélagsins?

Reyndar tel ég að fleiri mótsagnir sé að finna á milli þessa lagafrv. annars vegar og sveitarstjórnarlaga og annarra laga hins vegar. Reyndar eru miklu stærri og alvarlegri mótsagnir í lagabálkunum sem ég vísaði til áðan um Orkuveitu Reykjavíkur, Norðurorku og Hitaveitu Suðurnesja. En eitt af því sem menn hafa einmitt verið að kljást við er að Hitaveita Suðurnesja á Vatnsveituna í Vestmannaeyjum sem kemur sennilega úr Fljótshlíðinni, ekki satt, og vatnið sem kemur þaðan. (Gripið fram í: Og í Reykjanesbæ.) Og í Reykjanesbæ. Menn bregðast við með því að breyta grundvallarlögum um vatnsveitur á Íslandi vegna þess að Hitaveita Suðurnesja býr við þetta eignar- og rekstrarform núna. Þá telja menn að breyta þurfi allri lagasmíð um vatnsveitur á Íslandi til þess eiginlega að gera þá starfsemi löglega. Er þetta eðlilegur framgangsmáti? Mér finnst það ekki.

Sannast sagna snúast áhyggjur mínar yfir þessu frv. fyrst og fremst að því að við séum að hefja hér vegferð í átt til einkavæðingar á drykkjarvatninu. Það held ég að við séum að gera.

Ég geri ekki lítið úr þeim atriðum sem ég nefndi áðan um arðinn, þ.e. að bannað sé að taka arð út úr þessari starfsemi. Mér finnst það vera mjög mikilvægt atriði. Minnist ég þess að ég átti ágætar viðræður á sínum tíma við bandaríska sérfræðinga í raforkumálum sem hingað komu til lands og sögðu að tvær leiðir væru til að taka á þessum málum, annars vegar sú að reyna að hafa áhrif á eignarformið, að gæta að því að það haldist í opinberri eigu, hjá sveitarfélögum eða ríki, og síðan væri hin leiðin að halda kröfunni um arð eða halda þakinu á heimild til útborgaðs arðs það lágu að fjárfestar gætu ekki gert þetta að gróðafyrirtæki. Það væri hin leiðin. Það er sú leið sem Bandaríkjamenn hafa farið. Það kalla Bandaríkjamenn ,,regulation``, þ.e. að setja þjónustustarfsemi af þessu tagi strangar reglur. Eina raforkuveitan sem stóð sig í stykkinu þegar Enron-hneykslið reið yfir Kaliforníu á sínum tíma var nú reyndar raforkuveitan í Los Angeles sem var í eigu Los Angeles borgar. Hitt varð allt meira og minna gjaldþrota með geysilegum tilkostnaði fyrir samfélagið.

Þetta óttast ég að við séum að gera. Við erum að hefja hér vegferð í átt til markaðsvæðingar á þessari grunnþjónustu. Ég hef ekki trú á því að það vaki fyrir núverandi hæstv. félmrh. að gera það. En ég spyr hann hvort hann óttist ekki að með þessari lagasmíð séum við að hefja slíka vegferð?

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, enda er tími minn á þrotum. Ég segi það eitt að yfir þetta frv. verður lagst mjög rækilega og málin verða skoðuð mjög gaumgæfilega. Ég veit að samtök launafólks, og vísa ég ekki þar síst til BSRB, hafa áhuga á að skoða frv. og á án efa eftir að koma með ítarlega umsögn um málið.