Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 17:28:21 (4272)

2004-02-16 17:28:21# 130. lþ. 64.4 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Vatnsveitur eru mjög mikilvæg starfsemi sem snertir almenning og öll fyrirtæki í landinu. Það skiptir atvinnulífið mjög miklu máli hvernig staðið er að skipulagi á dreifingu neysluvatns og allri lagaumgjörðinni vegna þess að það verður aldrei nein samkeppni um dreifingu á neysluvatni. Þeir sem dreifa neysluvatni til íbúa verða í einokun og það er mjög ólíklegt að nokkrir fari í að leggja aðrar lagnir um bæi landsins og í samkeppni við vatnsveitu. Auðvitað er mögulegt og dæmi finnast um það að stærri fyrirtæki leggi sér lagnir úr vatnsbólum og í fyrirtækin. En það er samt sem áður algjör undantekning. Allur þorri fyrirtækja mun skipta við einokunarfyrirtækið. Það skiptir því fyrirtækin í landinu og íbúa þess mjög miklu máli hvernig þessum málum verður háttað.

Gott neysluvatn er takmörkuð auðlind sem er oft og tíðum vanmetin. Í Evrópu er ekki óalgengt að fara þurfi í umfangsmikla og dýra hreinsun á aðskotaefnum úr vatninu og einnig sótthreinsa það. Ég ítreka að við erum hér að ræða um lagaumgjörð um takmarkaða auðlind sem verður dreift af fyrirtæki eða vatnsveitu sem er í einokunaraðstöðu. Ég lít svo á að þeir sem semja lögin og við sem setjum lögin hér verðum að hafa þetta í huga. Þetta er og verður einokunarstarfsemi. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli fyrir alla sem þessi starfsemi varðar að hafa það í huga. Það á sérstaklega við um matvælafyrirtæki sem nota mikið vatn, svo sem sláturhús og fiskvinnslur. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þau.

[17:30]

Í athugasemdum við frv. er ekki að sjá að þessi einokunaraðstaða vatnsveitna hafi verið skoðuð sérstaklega. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort litið hafi verið til þessara sjónarmiða, þ.e. að um takmarkaða auðlind sé að ræða og um einokunaraðstöðu vatnsveitnanna.

Frú forseti. Ég vil spyrja félmrh. um 1. gr. og hvernig munurinn á dreifbýli og þéttbýli er skilgreindur. Það skiptir mjög miklu máli þar sem gerðar eru mun meiri kröfur til sveitarfélaga um að starfrækja vatnsveitur í þéttbýli og minni kröfur í dreifbýli.

Varðandi 2. gr. frv. sem er að opna á önnur rekstrarform vatnsveitna en að sveitarfélögin reki þau þá vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort verið sé að opna á að vatnsveitum verði breytt í hlutafélög. Í raforkulögum eru mun nákvæmari ákvæði um rekstur og verðlagningu raforkukerfisins sem einnig er einokunarkerfi. Mér finnst eins og þetta frv. sé miklu opnara og mun verr skilgreint hvað varðar verðlagningu. Að vísu kom fram í umræðunni áðan að ekki verður heimilt að taka arð. En hvað ef fyrirtækinu er breytt í hlutafélag? Mun það ákvæði síðan stangast á við hlutafélagalögin og verður síðan þjarkað um hvort þetta ákvæði haldi? Ég tel að gott væri að fá þessi mál á hreint hvað þetta varðar vegna þess að þetta atriði verður að vera á hreinu, þ.e. að ekki verði hlutafélagavætt og síðan verði greiddur arður út úr fyrirtækinu.

Í 2. gr. kemur fram að sveitarstjórn eigi að fylgjast með því að þjónusta vatnsveitu við íbúa sé í samræmi við lög eða samninga. Ég vil því í framhaldinu spyrja hæstv. félmrh.: Með hvaða þáttum í rekstri vatnsveitunnar á sveitarstjórn að fylgjast? Mér finnst það ekki koma mjög skýrt fram í frv. hvaða þættir það eru. Segjum sem svo að sveitarstjórn eigi að fylgjast með einhverjum þáttum. Við fáum það e.t.v. fram síðar í umræðunni að sveitarstjórn eigi að fylgjast með einhverjum þáttum. Hvað á þá sveitarstjórnin til bragðs að taka? Hér er átt við ef ekki er farið að tilmælum. Hvaða úrræði hefur hún? Það kemur ekki fram í frv., a.m.k. er það ekki mjög skýrt.

Mér finnst 4. gr. frv. fremur illskiljanleg. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.``

Ég verð að segja eins og er að ég átta mig ekki á hvað verið er að blanda ríkisvaldinu inn í þessa umræðu um vatnsveitur.

Hér fyrr kom fram í máli hæstv. félmrh. að þetta ákvæði, þ.e. 4. gr., heimilaði að sveitarfélögin leystu til sín vatnsveitur á ný. Ég fæ ekki lesið þá heimild út úr þessari 4. gr. að leysa megi vatnsveiturnar til sveitarfélaganna á ný. Mér finnst það ekki mjög skýrt. Það er mikil þörf á að gera það ákvæði skýrara og líka í hvaða tilfellum sveitarstjórn getur þá gripið til þess.

Hvað varðar bann við að rjúfa innsigli þá kemur fram í hegningarlögunum að innsiglið sé opinber ráðstöfun. En mun innsiglið vera opinber ráðstöfun ef hlutafélag eða einkahlutafélag innsiglar? Þessi mál þarf að skýra og koma betur á hreint.