Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 17:45:00 (4274)

2004-02-16 17:45:00# 130. lþ. 64.4 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef tryggt væri að vatnsveiturnar yrðu í samfélagslegri eign eftir þessa lagasetningu hefði ég ekki efasemdir um þetta frv. vegna þess að ég er því fylgjandi að skapaður verði ákveðinn sveigjanleiki um aðkomu mismunandi sveitarfélaga að vatnsveitunum og þessari grunnþjónustu. Það sem ég geri athugsemdir við er að opnað verði á möguleika einkaaðila, aðila á markaði, að vatnsveitunum. Ég tel að við þurfum að taka til skoðunar í nefndinni, í félmn., hvort ekki eigi að breyta 4. gr. frv. að þessu leyti og geirnegla þar samfélagslegt eignarhald á vatnsveitunum. Það mundi gerbreyta frv. í mínum huga.

Það væri fróðlegt að heyra nánari útlistanir hæstv. ráðherra á þeirri hættu sem ég vek máls á, að eignaraðili, markaðsfyrirtæki, fái ráðandi hlut jafnvel þótt ríki og sveitarfélög eigi meiri hluta í félaginu. Þetta er raunveruleg hætta.

Varðandi lögboðnar skyldur sem félagi er skylt að leysa minni ég svo á að vatnsveitunni í Yorkshire í Bretlandi og Grenoble í Frakklandi, sem var einkavædd, var gert að hlíta slíkum reglum. Engu að síður var allur reksturinn í miklum ólestri og ekki neytendum kalda vatnsins á þessum svæðum til hagsbóta.