Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 17:47:09 (4275)

2004-02-16 17:47:09# 130. lþ. 64.4 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér ekki svarað spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar hvað varðar hættuna á ráðandi hlut annarra en opinberra aðila í vatnsveitum framtíðarinnar með öðrum orðum en ég hef hér þegar rakið. Ég tel að það að með frv. er ekki gert ráð fyrir heimild til arðgreiðslu sé algjört lykilatriði hvað þetta mál varðar. Það er rétt að undirstrika það enn og aftur að þarna er þó skýrt kveðið á um það að þeim sem reka vatnsveitu er ekki heimilt að selja þjónustu sína hærra verði en svo að dugi fyrir rekstri veitunnar. Það er ekki gert ráð fyrir að rekstur þessi myndi nokkurs staðar nokkurn hagnað. (MÁ: Bannað að græða.) Bannað að græða, segir hv. þm. Það má til sanns vegar færa. Með frv. er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé eða heimilt að reka vatnsveitur með hagnaði. Ég held að það svari spurningu hv. þingmanns.