Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 17:51:25 (4278)

2004-02-16 17:51:25# 130. lþ. 64.4 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Sigurjóni Þórðarsyni fyrir spurninguna. Það er full ástæða til að velta þessu fyrir sér og vekja athygli á því. Svarið við þessu er það að ég hef út af fyrir sig ekki áhyggjur af framkvæmd þessa. Það er auðvitað alþekkt, m.a. í rekstri ýmissa ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, að menn gera bókhaldslegan aðskilnað í rekstri sínum þegar kemur að því að horfa annars vegar til samkeppnisrekstrar og hins vegar rekstrar af því tagi sem við hér ræðum um. Og reki menn vatnsveitu inni í fyrirtæki sem á í samkeppnisrekstri verður að sjálfsögðu að gera þá kröfu til viðkomandi fyrirtækis að þessi aðskilnaður sé alveg skýr. Ég þakka ábendinguna.