Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 13:39:22 (4281)

2004-02-17 13:39:22# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á málefnum símenntunarmiðstöðvanna og um leið líka þakka henni fyrir þessa ágætu ræðu þar sem greinilegt er að hún ber mikla umhyggju fyrir hag símenntunarmiðstöðvanna og þeirra sem þar vinna. Ég mun reyna eftir bestu getu að svara þeim spurningum sem hv. málshefjandi bar fram.

Símenntunarmiðstöðvar eru starfræktar í öllum landshlutum. Þær eru sjálfseignarstofnanir og lúta forræði heimamanna á hverjum stað. Hlutverk þeirra er að efla símenntun með því að miðla námskeiðum og auka samstarf atvinnulífs og skóla til að tryggja samkeppnishæfni byggðarlaga.

Í dag eru níu símenntunarmiðstöðvar starfræktar í öllum landshlutum og tók fyrsta símenntunarmiðstöðin til starfa 1. febrúar 1998. Þessar símenntunarmiðstöðvar voru í upphafi stofnaðar til að efla almenna menntun á hverjum stað og ekki síst til að efla almenna fullorðinsfræðslu. Símenntunarmiðstöðvarnar hafa haft frumkvæði í því að miðla námi, hver á sínu svæði í samvinnu við atvinnulíf og íbúa svæðanna. Sem þátt í að miðla og kynna nám fyrir heimamönnum hafa þær undanfarin fimm ár tekið virkan þátt í þeirri viku símenntunar sem m.a. menntmrn. hefur gengist fyrir. Fljótlega eftir stofnun símenntunarmiðstöðvanna fór að færast í vöxt að þær miðluðu námi á framhalds- og háskólastigi innan sinna svæða. Þar með hafa tengsl símenntunarmiðstöðvanna við hið formlega skólakerfi verið að eflast. Þær gegna því stöðugt mikilvægara hlutverki í að veita stoðþjónustu við nemendur og aðstöðu fyrir kennslu og próf og þannig hefur skapast grundvöllur fyrir frekari þjónustu vegna háskólanáms.

Menntmrn. hefur fyrir sitt leyti lagt áherslu á að bæta aðgengi símenntunarmiðstöðva að fjarskiptum og í byrjun síðasta árs var tekið í notkun svokallað FS-net sem er háhraðanet sem tengir saman alla framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar á um 40 stöðum á landinu.

Hv. málshefjandi spyr hvort menntmrh. muni beita sér fyrir að rekstrargrunnur símenntunarmiðstöðva verði tryggður. Það hefur ekki staðið til að ríkissjóður stæði undir útgjöldum símenntunarmiðstöðvanna. Þar hljóta menn einnig að líta til sveitarfélaga en framlög þeirra til símenntunarmiðstöðva hafa verið nánast engin.

Eins og fyrr segir eru símenntunarmiðstöðvar í eigu heimamanna en hafa notið fjárframlaga á fjárlögum allt frá stofnun. Þetta fjárframlag er fyrir árið í ár 9 millj. kr. fyrir hverja símenntunarmiðstöð. Ráðuneytið lítur því svo á að með þessu framlagi sé lágmarksrekstur símenntunarmiðstöðvanna tryggður en ég vil vekja athygli á, eins og ég gat um áðan, að þetta eru sjálfseignarstofnanir. Einnig hafa sveitarfélögin lítið lagt til þeirra en þó má geta þess að m.a. á Suðurnesjum hafa sveitarfélögin lagt nokkuð til þeirra.

Í samkomulagi menntmrn. og iðnrn. um verklag á sviði byggðamála sem gert var í desember á síðasta ári er lögð áhersla á að starfsemi símenntunarmiðstöðva verði efld með það að markmiði að styrkja landsbyggðina með bættu aðgengi að menntun á grunn- og framhaldsskólastigi. Þetta á einnig við um starfsnám þar sem nemendur geta sinnt bóklegum hluta námsins í fjarnámi. Síðan hefur verið unnið að uppbyggingu háskólanámssetra á Egilsstöðum og Húsavík sem byggja á grunni símenntunarmiðstöðva. Einnig hefur verið stutt við þjónustu vegna háskólanáms á Vestfjörðum en byggðaframlag til þessarar starfsemi var á árinu 2003 um 10 millj. til háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum. Háskólanámssetur á Egilsstöðum fékk 16 millj. og fræðasetrið á Húsavík um 5 millj.

Eins og áður segir hefur sífellt stærri hluti starfsemi símenntunarmiðstöðvanna verið að miðla háskólanámi. Ég hef ákveðið að stofna starfshóp til að fjalla um opinberan stuðning við skipulag og uppbyggingu aðstöðu til fjarnáms utan höfuðborgarsvæðisins. Þessari nefnd er einkum ætlað að gera tillögu um það hvaða meginsjónarmið verði lögð til grundvallar þessum stuðningi almennt þannig að samræmis og jafnræðis sé gætt varðandi þá aðstöðu sem þeim sem stunda framhalds- eða háskólanám í fjarnámi er sköpuð til að stunda nám sitt. Hópurinn skal á grundvelli þeirrar reynslu sem fengin er af starfrækslu símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni leggja mat á það hverju opinber stuðningur við þær hefur skilað og hvernig skynsamlegast sé að haga honum í framtíðinni.

Þá skal hópurinn einnig fjalla um hlutverk og fjárhags- og starfsgrundvöll símenntunarmiðstöðvanna. Hópurinn skal fjalla um uppbyggingu svokallaðra háskólanámssetra á landsbyggðinni og gera tillögu um það hvernig henni verði háttað og hvernig fara eigi með ábyrgðar-, verka- og kostnaðarskiptingu aðila í héraði ríkisvaldsins og einstakra háskólastofnana. Skal það haft að leiðarljósi að hlutverk þessara setra verði skilgreint með samræmdum hætti og að stuðningur við þau byggist á hlutlægum forsendum.