Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 13:47:04 (4283)

2004-02-17 13:47:04# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Í byggðalegu tilliti er starfsemi símenntunarmiðstöðva afar mikilvæg. Við sjáum ánægjulega þróun víða um land þar sem miðstöðvarnar hafa sannað hvað hægt er að gera þegar mismunandi aðilar taka höndum saman.

Sem dæmi má nefna elstu símenntunarmiðstöð landsins, Fræðslunet Austurlands á Egilsstöðum, en það var ekki síst vegna framsýni fjárlaganefndar þess tíma, árið 1998, að hún fékk framlag á fjárlögum. Í fyrra voru þátttakendur í námskeiðum á vegum fræðslunetsins 553 og eru nemendur í fjarnámi á háskólastigi sem nota aðstöðu fræðslunetsins yfir 150. Þetta er nauðsynleg þróun, ekki síst til að tryggja framfarir á þeim svæðum sem miðstöðvarnar starfa.

Fyrir ári síðan undirrituðu þáv. hæstv. menntmrh. og hæstv. iðnrh. samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar á landsbyggðinni. Verkefnin voru skilgreind í samræmi við byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005 þar sem lögð er áhersla á tengsl menntunar og menningar við þróun atvinnulífs í dreifðum byggðum.

Liður í samkomulaginu er að starfsemi símenntunar verði efld með það að markmiði að styrkja landsbyggðina með bættu aðgengi að menntun á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastigi. Mikilvægt er að slík starfsemi standi öllum til boða óháð búsetu og verður áfram unnið að því.

Herra forseti. Við munum halda áfram á þessari braut að efla símenntunarmiðstöðvar um allt land eins og gert hefur verið hingað til. Ég vil í því tilliti sérstaklega fagna stofnun starfshópsins sem hæstv. ráðherra boðaði áðan.