Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 13:58:25 (4288)

2004-02-17 13:58:25# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Björgvin G. Sigurðsson:

Ágæti forseti. Fullyrða má að fræðslunetin og símenntunarstöðvarnar séu ein best heppnaða byggðaaðgerð síðari tíma, ef svo má að orði komast. Áríðandi er að skilgreina hlutverk stöðvanna og veita til þeirra fjármagn í samræmi við það, en mikils ósamræmis gætir í rekstri og fjárveitingum til þeirra núna. Starfsemi stöðvanna er ólík, útstöðvar misjafnlega margar og námsframboð mjög breytilegt. Þær sem bera titilinn ,,háskólasetur`` fá umtalsvert meira rekstrarfé en fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar, þrátt fyrir sambærilegar aðstæður, og það misræmi er brýnt að leiðrétta.

Aðgengi að nýjum námstækifærum og háskólamenntun í heimabyggð hefur í för með sér gagngera samfélagsbreytingu og opnar nýjar gáttir tækifæra til betra mannlífs og atvinnulífs fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Tilkomu og uppbyggingu símenntunarstöðvanna er ekki hægt að kalla annað en byltingu fyrir íbúa landsbyggðarinnar í aðgengi að menntun og nýjum tækifærum til náms, hvort heldur er til að auka við fyrri menntun eða afla framhaldsmenntunar ofan á grunnnám.

Af hálfu stjórnvalda er hins vegar ekki nógu vel að málum staðið. Mikilvægt er að færa símenntunarstöðvarnar undir menntmrn. og sníða þeim þann stakk sem viðunandi er til að sú mikla og að mörgu leyti glæsilega þróun í aðgengi að menntun haldi áfram af fullum krafti.

[14:00]

Næsta skref í þessari þróun á að vera samræmdur netháskóli sem býður upp á nám í afmörkuðum greinum. Það er nefnilega í gegnum menntun og ný tækifæri sem landsbyggðin nær aftur vopnum sínum. Símenntun og fræðslustöðvar verða þungamiðja þeirrar þróunar. Því þarf að vanda til þeirra verka. Samræmdur netháskóli gæti orðið sá framtíðarfarvegur sem símenntunar- og fræðslustöðvar færu í til að efla þessa mikilvægu viðbót við skólastarf Íslendinga.