Símenntunarmiðstöðvar

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:05:27 (4291)

2004-02-17 14:05:27# 130. lþ. 65.94 fundur 335#B símenntunarmiðstöðvar# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að þakka enn og aftur fyrir umræðuna. En mér finnst vænt um að finna þann hlýhug og stuðning sem símenntunarmiðstöðvarnar hafa hjá þingheimi.

Það er ljóst að símenntunarmiðstöðvarnar spruttu upp úr frjóum jarðvegi, spruttu af ásókn fólks í menntun. Fólk vill mennta sig meira. Fjölbreytni náms hefur aukist og auðvitað hefur fjármagn til menntamála aukist gríðarlega yfir heildina, sér í lagi frá árinu 2000.

Ég vil ekki að símenntunarmiðstöðvarnar verði eingöngu undir hatti ríkisins, eins og mátti skilja af orðum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég vil áfram sjá símenntunarmiðstöðvarnar í þeim frjóa jarðvegi sem þær eru í núna. Sveitarfélögin koma að þessu og atvinnulífið þyrfti að koma í enn ríkari mæli að málinu og síðan sjálft ríkisvaldið. Ég tel að þannig getum við byggt upp enn öflugri símenntunarmiðstöðvar og það er gaman að fá að taka þátt í þeirri þróun sem símenntunarmiðstöðvarnar stuðla að. Við gætum farið út í miklar og langar vangaveltur um hvert hlutverk símenntunarmiðstöðva verði í framtíðinni. Ég ætla ekki að segja þessum ágæta starfshóp nákvæmlega fyrir verkum en ég sé fyrir mér að við samræmum reglur varðandi símenntunarmiðstöðvarnar þannig að undir þær geti annars vegar fallið verknám eða starfsnám, þar sem atvinnulífið kemur með drjúgum hætti inn í, og síðan gætu þær verið með yfirhatt yfir háskólanámið líka. Það er gríðarlega mikilvægt, eins og hv. þm. Kristín Anna Gunnarsdóttir kom inn á áðan, að við eflum háskólanám á landsbyggðinni. Okkur er að takast að auka það en við þurfum að halda áfram á þeirri braut.

Ég ítreka að ég vonast til að við sjáum um þessa starfsemi samræmdar reglur án þess að þær niðurnjörvi svigrúm og hlutverk símenntunarmiðstöðva. Þær hafa staðið sig með prýði. Við þurfum eingöngu að ýta þeim áfram í þeirri jákvæðu þróun.