Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:26:17 (4295)

2004-02-17 14:26:17# 130. lþ. 65.4 fundur 156. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki svo að ég sé á móti lýðræðinu, síður en svo, og að einstaklingarnir í samfélaginu hafi áhrif á ákvarðanir valdhafanna. Ég er einfaldlega að benda á það að ég tel að það kunni að orka tvímælis að lögfesta reglu eins og þessa í sveitarstjórnarlögin og bendi á að eðli málsins samkvæmt hljóta stjórnendur sveitarfélaga eða stjórnendur í landsstjórninni að fara eftir vilja fólksins í landinu eða fólksins í sveitarfélögunum og hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem almenningur hefur fram að færa varðandi einstök álitamál sem upp koma. Það gefur augaleið.

Ég tel því að eðli málsins samkvæmt sé það alla vega álitamál hvort rétt sé og eðlilegt að festa reglu eins og þessa í lög og hvort ekki sé réttara að fara eftir því sem mér heyrðist hv. þm. Margrét Frímannsdóttir koma að í ágætri framsöguræðu sinni, að hlusta á raddir sveitarstjórnarmannanna sem hafa að því er mér virðist, flestir lagst gegn því að regla sem þessi sé fest í lög.