Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:30:13 (4297)

2004-02-17 14:30:13# 130. lþ. 65.4 fundur 156. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. Framsagan fyrir því var mjög góð þannig að ég þarf ekki miklu við að bæta en ég ætlaði fyrst og fremst að leggja áherslu á það sem hv. frsm. Margrét Frímannsdóttir talaði einmitt um síðast, nauðsyn þess að samráðsferli við íbúana og milli íbúanna verði mikið í tengslum við stækkun sveitarfélaganna sem hefur orðið og er líklegt að verði enn frekar á næstunni.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að tryggja samráðsvettvang og sem allra mest afskipti almennings af því umhverfi sem mun verða þegar sveitarfélögin hafa stækkað. Það mun koma í veg fyrir óheppilegar afleiðingar þess að einstakir kjarnar verði án sérstakrar stjórnar. Þetta er einmitt það sem margir óttast og hefur orðið til þess að þeir hafa ekki viljað taka þátt í því að stofna til stórra sveitarfélaga, að svæðin þeirra verði út undan. Þá þurfa menn auðvitað að hugsa upp leiðir til þess að lýðræðið verði sívirkt í þessum stærri sveitarfélögum og að allir íbúar fái tækifæri til að hafa áhrif á stjórn sveitarfélaganna. Ef það er þörf á þessu einhvern tíma er hún sérstaklega mikil núna í tengslum við þá stækkun sem hefur farið fram og þá stækkunarhrinu sem ég satt að segja vona að við eigum eftir að sjá á allra næstu árum.

Það er auðvitað algjör nauðsyn á því að sveitarfélögin í þessu landi verði fær um að taka við nýjum verkefnum frá hinu opinbera og sjá um alla nærþjónustu. Það þýðir að sveitarfélögin verða, mörg hver, miklu stærri en þau eru núna. Þau verða mjög víðfeðm og innan þeirra verða svæði sem eru kannski tiltölulega einangruð frá viðkomandi sveitarfélagi og þá þurfa íbúarnir á þeim svæðum að eygja leiðir til að hafa áhrif. Ein þessara leiða er þetta íbúaþing. Þar geta komið fram hugmyndir um það hvernig eigi að þróa samráð og lýðræði innan þessara sveitarfélaga. Ég er sannfærður um að það þarf að hafa þetta í lagatexta. Það þarf að hafa þetta í lögum, annars er það ekki skylda. Og það er ekki hægt að setja út á það við neina sveitarstjórn að hafa ekki íbúaþing ef ákvæði um það er ekki í lögum.

Þingmál um þetta hefur verið lagt fram. Ef Alþingi hafnar þingmálinu og telur ekki ástæðu til að setja þetta í lög er ekki hægt að skilja það nema á einn veg, þ.e. að ekki sé þörf á því að skylda menn til þess. Þeir sem telja af einhverjum ástæðum, sem gætu verið pólitískar, óheppilegt að halda íbúaþing geta þá bara skotið sér bak við það að Alþingi hafi ekki séð ástæðu til að setja þetta í lög.

Þetta er að mínu viti góð hugmynd sem getur nýst til þess að vinna jákvætt að íbúalýðræði. Ég held að þessi íbúaþing þurfi að vera á öðru ári kjörtímabilsins, í upphafi annars árs kjörtímabilsins eða eitthvað svoleiðis, þannig að þau séu ekki inni í því umhverfi sem kosningar skapa oft, menn séu í afslöppuðu pólitísku umhverfi þegar þeir hittast og velta sameiginlega fyrir sér framtíð sveitarfélagsins sem þeir búa í. Ég efast ekki um að margt jákvætt muni verða --- eins og hefur komið út úr þeim íbúaþingum sem hafa verið haldin --- en þau eru að mínu viti, eins og ég endurtek enn einu sinni, kannski nauðsynlegri núna en nokkru sinni áður. Sérstaklega munu þau verða nauðsynleg ef til verða sveitarfélög sem eiga eftir að fara í gegnum það ferli sem það er að láta lýðræðið og samvinnuna virka í nýju stóru sveitarfélagi.