Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:35:30 (4298)

2004-02-17 14:35:30# 130. lþ. 65.4 fundur 156. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem við ræðum tekur til þess að efla íbúalýðræði með fyrirkomulagi sem í þessum texta er kallað íbúaþing. Það tel ég að eigi fullan rétt á sér, ekki síst í ljósi þess að sveitarfélögin hafa verið að sameinast og munu að öllum líkindum sameinast meira á næstu árum, jafnvel svo að eitt sveitarfélag nái yfir einn landshluta, eins og t.d. Vestfirði eða Snæfellsnes svo að við tökum dæmi. Vafalaust mun sams konar þróun verða annars staðar á landinu. Ég hygg að þessi þróun muni verða í náinni framtíð þegar samgöngur eru orðnar með þeim hætti að það sé hægt að hafa eitt sveitarfélag á sumum landsvæðum.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að gefa íbúum í sveitarfélögum tækifæri til að tjá skoðanir sínar. Hvaða áherslu vilja íbúarnir leggja á einstök mál í sveitarfélögunum, ekki síst þegar þau stækka og verða dreifðari með kannski mismunandi áherslur á milli svæða innan sama sveitarfélags? Þetta er alveg fyrirsjáanlegt að verði í framtíðinni. Það liggur auðvitað líka fyrir að með þeirri stefnu sem almennt er horft til hér á landi, að sveitarfélögunum fækki, munu sveitarfélögin sækjast eftir fleiri og víðfeðmari verkefnum á fleiri sviðum en nú er. Það er eðlileg og sjálfsögð þróun að mínu viti að færa þjónustu nær íbúunum ef því verður viðkomið en til þess þurfa þá auðvitað, eins og svo oft hefur komið fram í umræðu á hv. þingi, að fylgja tekjustofnar frá ríki til sveitarfélaga. Það er til lítils að láta sveitarfélögin taka að sér aukin verkefni ef þau eru svelt í fjármagni.

Ég vil hins vegar vekja athygli á þeirri skoðun minni að þegar slíkt ákvæði er fest í lög sem hér er lagt til tel ég það eiga að vera afmarkaðra en hér er lagt upp með. Ég tel að íbúaþing eigi að afmarka innan lagatexta sem væri eitthvað á þá leið að sagt væri að á fyrri hluta kjörtímabils eða á miðju kjörtímabili skyldi halda íbúaþing o.s.frv. Það er lítið gagn að svona lagaákvæði ef það verður til þess að íbúaþingin eru haldin kannski mánuði fyrir kosningar á fjögurra ára fresti. Það er ekki hugsunin í þessu frv. eins og ég les hana og heyrði hv. frsm. Margréti Frímannsdóttur mæla fyrir málinu.

Hugsunin er önnur, að tryggja það að hér sé um virkt lýðræði að ræða, fólk geti komið skoðunum sínum á framfæri, það hafi til þess lögformlegan farveg og sveitarfélaginu beri þá að líta til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram. Þó að ekki sé mælt fyrir um það í frv. að sveitarfélagið skuli taka stefnumálin upp er eðlilegt að byrja þessa þróun með því að þær séu leiðbeinandi, skoðanir íbúanna sem þarna eru leiddar fram, og þeim sé gefinn gaumur. Ég held að þetta sé nauðsynlegt þegar við horfum til stækkandi sveitarfélaga með fleiri verkefnum. Þess vegna tek ég undir það að setja þetta inn í lagatexta og setja það þannig inn í hann að það beri að halda íbúaþing á miðju kjördæmabili. Það hlýtur að vera tilgangurinn að íbúar sveitarfélagsins komi sjónarmiðum sínum á framfæri oftar en nú er, sem að jafnaði liggur í þeim málflutningi sem byrjar að eiga sér stað nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Við sjáum t.d. að fundir bæjarstjórna eru alla jafna ekkert fjölsóttir þó að opnir séu. Það þarf að koma þessu í ákveðinn farveg og alveg sérstaklega þegar sveitarfélögin stækka, þá þarf að tryggja þennan samráðsvettvang.

Þess vegna beini ég því til þingmanna og þeirra sem starfa í hv. nefnd, félmn. sennilega, að þau sjónarmið verði skoðuð alveg sérstaklega varðandi það að festa meira niður að til slíks þings skuli boðað með ákveðnum reglum og ákveðnum fyrirvara á fyrri hluta eða í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Ég held að það sé mikilvægt til að tryggja að það samráðsferli sem hér er verið að bjóða upp á og öll sjónarmið komist fram. Þá er líka ráðrúm til þess á seinni hluta kjörtímabilsins að taka til einhvers konar úrvinnslu úr því samráðsferli sem boðið er upp á með íbúaþinginu. Ég held að það yrði bara til góðs að þannig yrði frá þessu gengið og að því samráði sem íbúunum er gefinn kostur á með málefni sín á íbúaþinginu verði þannig tryggður ákveðinn farvegur.

Íbúarnir eiga þess þá kost, í síðasta lagi að tveimur árum liðnum, að dæma um það í sveitarstjórnarkosningum hvort unnið hafi verið úr því sem lagt var upp með á íbúaþinginu. Þar gætu verið stefnumál sem mikill meiri hluti eða jafnvel allir þeir sem á íbúaþingið mættu tækju undir og það væri náttúrlega ekki mjög björgulegt ef sveitarstjórn kæmist upp með það í næstu kosningum að hunsa slíkt vegna þess að þingið hefði verið haldið svo nálægt kosningum að það væri ekkert ráðrúm til þess að vinna úr athugasemdum.

Ég held að svona eigi að hugsa þetta mál. Ég legg til að það verði gert og að það komi til baka til afgreiðslu í þinginu í þá veru sem ég hef lagt til varðandi það að tryggja þetta samráðsferli þannig að fullt gagn verði að því.