Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:57:41 (4302)

2004-02-17 14:57:41# 130. lþ. 65.5 fundur 157. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Þetta frv. fjallar um það að auka meðferðarúrræði sem tengjast fíkniefnaneyslu ungra fíkniefnaneytenda. Almennt má segja að því miður höfum við ekki nægileg úrræði í þjóðfélaginu, hvorki eiginlega fyrir ungt fólk og börn sem ánetjast fíkniefnum né þá sem eldri eru og komnir eru í hina alhörðu neyslu eins og það er stundum orðað. Um þetta hafa oft og tíðum farið fram umræður á hv. Alþingi og má í því sambandi minna á umræðu sem við tókum við fjárlagaumræðuna um stöðu Byrgisins m.a. og annarra meðferðarheimila sem tekist hafa á við það vandamál að taka að sér þá sem lengst eru gengnir í þessu mikla böli fíkniefnaneyslunnar.

Við eigum til máltæki í íslensku máli sem segir: Of seint er að byrgja brunninn, þá barnið er dottið ofan í. Ég held að það eigi við í þessu máli að það sé mikið á sig leggjandi fyrir íslenskt þjóðfélag að takast á við fíkniefnavanda unglinga og barna og reyna með öllum ráðum að finna því farveg að það megi taka á þeim vanda með þeim hætti að snúa þeim sem hafa hafið neyslu ungir af þeirri villu og þeirri hrösunarbraut sem þeir ella væru að stefna inn á. Því tek ég heils hugar undir það sem lagt er til í frv., að opna fyrir þann möguleika að forráðamenn og framfærendur barna geti tekið að sér umönnun ungra fíkniefnaneytenda og fengið til þess ákveðinn styrk.

[15:00]

Ég tel að með þessu skapist úrræði sem gætu nýst mjög vel. Í þjóðfélaginu eru ekki nægir möguleikar innan þess kerfis sem við höfum til úrlausnar á þessum vandamálum. Við vitum að flestar stofnanir sem fást við meðferðarúrræði fíkniefnaneytenda hér á landi eru fullar og vel það. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að hér á landi þarf að gera mikið átak í þessum efnum.

Við höfum verið að skoða þessi mál í Frjálsl. og velta fyrir okkur hvað væri til ráða. Auðvitað er almennt hægt að segja að vandamálið er mjög stórt og kannski engin sérstök patentlausn til á því. Okkur virðist samt alveg ljóst að það þarf að flokka miklu betur þá meðferðarkosti sem til staðar eru miðað við aldur fólks, miðað við fíkniefnanotkun og miðað við afbrotaferil þess, ef um það er að ræða. Það er alveg ljóst að þjóðfélagið þarf að bjóða upp á miklu fjölbreyttari meðferð en við bjóðum upp á í dag og fólk þarf að eiga kost á fleiri úrræðum.

Það sem hér er lagt til er einungis viðbót við þá umönnun sem stendur til boða í þjóðfélaginu. Hér er opnað á að forráðamenn geti tekist á við þetta. Fólk þarf að sinna vinnu sinni og getur ekki, svo vel sé, tekið frí mánuðum saman til þess að annast ungmenni sem lent hafa á þessari braut. Venjulega er búið að reyna verulega á fjölskyldur og fjárhag þeirra áður en til þess kemur að ungir fíkniefnaneytendur komast í meðferð. Því er ekki alltaf um auðugan garð að gresja varðandi efnahag í því tilfelli, ef búið er að standa í slíku ferli árum saman.

Ég tel að fara ætti að því sem hér er lagt til, að heimilislæknir, félagsráðgjafi og meðferðarfulltrúi veiti umsögn áður en þessi heimild er veitt. Með umsögn viðkomandi aðila væri hægt að inna umönnunargreiðslur af hendi til framfærenda. Ég held að sú tillaga sé ágætlega hugsuð og þannig útfærð að það hljóti að vera hægt að líta svo á að hér megi bæta við einu meðferðarúrræðinu. Eins og áður hefur komið fram í máli mínu er ekki vanþörf á því miðað við stöðu mála.

Það þarf fjölbreytilegri meðferð fyrir börn og ungmenni í þjóðfélagi okkar í dag en boðið er upp á. Það er hörmulegt að aldurinn sé sífellt að færast niður, þ.e. að fíkniefnaneytendurnir séu að verða yngri og yngri. Við sjáum jafnvel að börn undir 12 ára aldri eru farin að ánetjast fíkniefnum. Þetta er auðvitað sorgleg þróun. Okkur ber að mínu viti að takast á við hana með öllum ráðum. Ef þetta úrræði sem hér er lagt til getur orðið til bóta og bjargað einhverju er það vissulega þess virði. Við í Frjálsl. styðjum því þetta mál eindregið.

Ég vil hins vegar segja það almennt um fíkniefnamálin að þar er mikið verk að vinna í meðferðarmálum, að reyna að koma þeim til betri og skipulagðari vegar en verið hefur. Eins og ég sagði áður þarf að flokka í sundur fíkniefnaneytendur eftir því hvort þeir eru fíkniefnaneytendur og brotamenn annars vegar og síðan eftir eðli og umfangi eiturlyfjanna í fortíð viðkomandi. Við tökum undir með flutningsmönnum þessa frv. og teljum að hér sé verið að mæla fyrir góðu og þörfu máli. Við í Frjálsl. gerum okkur hins vegar fyllilega grein fyrir því að þetta er aðeins lítið skref á réttri leið. Það þarf að taka betur á í þessum málaflokki og ég held að flestir þingmenn sem hafa eitthvað kafað ofan í málin geri sér fyllilega grein fyrir því. Ég vona að það eigi líka við um þingmenn ríkisstjórnarflokkanna í þessum málum. Hér þarf að taka á.