Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:06:05 (4303)

2004-02-17 15:06:05# 130. lþ. 65.6 fundur 202. mál: #A réttindi sjúklinga# (biðtími) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja örfá orð um frv. til laga um réttindi sjúklinga. Aðalumræðan um þetta mál fór fram í síðustu viku þegar liðið var á daginn. Þá var a.m.k. einn þingmaður enn á mælendaskrá sem ekki er hér nú.

Mig langar aðeins að þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni um málið. Þetta snýst um að setja inn í lögin um réttindi sjúklinga ákvæði um hámarksbið eftir aðgerð, að hún verði ekki lengri en þrír til sex mánuðir eftir eðli sjúkdóms.

Umræðan sem fram fór í síðustu viku snerist nokkuð um að mönnum þótti málið mikilvægt, nema formanni heilbr.- og trn. sem taldi það óþarfa. Vissulega hafa biðlistar styst á sjúkrahúsum á Íslandi. Engu að síður þurfa menn að bíða lengi eftir aðgerðum, svo sem eftir augnaðgerðum, mun lengur en þessa þrjá til sex mánuði sem kveðið er á um í frumvarpi okkar. Flutningsmenn þessa máls telja því mjög mikilvægt að slík ákvæði komi inn í lögin um réttindi sjúklinga eins og reyndin er á Norðurlöndunum. Þar eru svona ákvæði komin inn en þar er biðtíminn mun skemmri en við leggjum hér til.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri að þessu sinni. Ég legg til að málið fari til hv. heilbr.- og trn. og vonast til að íslenskir sjúklingar fái sambærileg réttindi og sjúklingar í nágrannalöndum okkar sem hafa þann rétt að þurfa ekki að bíða lengur en þrjá til sex mánuði eftir læknisaðgerðum meðan engin slík ákvæði eru í lögum hér. Við leggjum til að hámarksbið verði þrír til sex mánuðir eftir eðli sjúkdóms.