Umferðaröryggi á þjóðvegum

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:28:46 (4309)

2004-02-17 15:28:46# 130. lþ. 65.7 fundur 205. mál: #A umferðaröryggi á þjóðvegum# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem kom hér fram hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að stofnanir, nefndir og ráð eru að störfum varðandi umferðaröryggi. Það er einnig rétt hjá hv. þingmanni að það er löngu tímabært að við hér á Alþingi látum málin til okkar taka.

Ég vil aðeins benda á það að hv. þm. sem hér flutti mál sitt, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefur ítrekað tekið þessi mál upp á Alþingi, bæði í formi þáltill. og eins fyrirspurna. Það er skortur á upplýsingum til Alþingis. Hluti af því er að þegar þingmenn flytja hér þingmannafrumvörp sín eða þáltill. er engin skylda ráðherra að vera viðstaddur slíka umræðu til þess að gefa þær upplýsingar sem þó lægju hugsanlega fyrir í viðkomandi ráðuneyti. Við það búum við og þess vegna má kannski segja að fjöldi fyrirspurna hafi margfaldast á undanförnum árum. Það er í raun og veru okkar leið til þess að ná fram þeim upplýsingum sem við erum að biðja um.

Ég vil bara í þessari umræðu minna á að það skiptir líka máli að lögregluembættin um land allt séu mönnuð og fjárveitingar til þeirra fáist, raunhæfar fjárveitingar, og menn taki þar tillit til þeirrar umferðar sem er og þeirra vegalengda sem eru í hverju umdæmi. Ég nefni bara sem dæmi sýslumannsembættið austur á Höfn í Hornafirði þar sem mikið vantar á að menn geti sinnt sínu reglubundna eftirliti eins og við teljum að nauðsyn sé á, vegna fámennis. Í þessu þurfum við að halda hæstv. dómsmrh. vel við efnið.