Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:32:31 (4311)

2004-02-17 15:32:31# 130. lþ. 65.8 fundur 207. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., 208. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um siðareglur fyrir alþingismenn annars vegar og hins vegar till. til þál. um siðareglur í stjórnsýslunni.

Flutningsmenn þessara tillagna eru þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstfl. Þeir eru auk mín, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Jónína Bjartmarz, Ögmundur Jónasson, Guðjón A. Kristjánsson, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir og Þórarinn E. Sveinsson.

Tillagan um siðareglur fyrir alþingismenn hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd að móta siðareglur fyrir alþingismenn. Nefndin hafi til hliðsjónar siðareglur annarra þjóðþinga. Reglurnar verði lagðar fram í formi þingsályktunartillögu í upphafi nýs þings árið 2004.``

Í tillögu þessari er ekki tekin afstaða til þess hvaða efnisatriði skuli tekin upp í siðareglur fyrir þingmenn. Telja verður eðlilegra að forsætisnefndin hafi þar frjálsar hendur, enda líklegra að þannig náist víðtæk samstaða um reglurnar. Vísað er þó til þess að í tillögugreininni er lagt til að forsætisnefnd hafi til hliðsjónar siðareglur annarra þjóðþinga.

Aðalatriðið er að þegar forsætisnefnd hefur lagt reglurnar fram í formi þingsályktunar gefist þingmönnum tækifæri til þess að fara yfir málið og ræða í þinginu þannig að breið samstaða geti náðst um þær.

Siðareglur hafa verið settar fyrir þingmenn á ýmsum erlendum þjóðþingum. Þær siðareglur sem danska, norska og sænska þingið hafa sett sér eru mjög svipaðar. Reglurnar eru valkvæðar en kjósi þingmenn að gangast undir þær þurfa þeir að samþykkja það skriflega og verða að beygja sig undir öll ákvæði þeirra því ekki er hægt að velja ákveðnar reglur úr og sleppa öðrum.

Dönsku reglurnar ganga í grófum dráttum út á það að gefa þingmönnum, varaþingmönnum og ráðherrum sem ekki eru þingmenn, kost á að:

skrá störf sín utan þings, sem dæmi má nefna stjórnunarstöður í fyrirtækjum eða stofnunum, hvort sem er á vegum hins opinbera eða einkaaðila, önnur launuð störf, hjá hverjum og um hvaða stöðu er að ræða, sjálfstæða atvinnustarfsemi og tegund starfseminnar,

greina frá hvers konar efnislegum eða fjárhagslegum stuðningi umfram það sem þingflokkurinn og þingið veitir og frá hverjum stuðningurinn er,

greina frá dýrum gjöfum sem tengjast starfinu og fara yfir 2.000 danskar kr. að verðgildi, tegund gjafar, hver gefur og hvenær,

greina frá fjárhagslegum stuðningi og styrkjum sem tengjast þingmennskunni og þingmaður tekur við frá stjórnvöldum, samtökum eða einkaaðilum erlendis frá, í hverju stuðningurinn er fólginn og frá hverjum hann er ef verðmætið fer yfir 2.000 danskar kr.,

greina frá ferðum og heimsóknum til útlanda sem tengjast þingmennskunni og ekki eru að fullu borgaðar af opinberu fé, stjórnmálaflokki viðkomandi þingmanns eða þingmanninum sjálfum, hvert er farið og hver greiðir,

greina frá eignum í félögum sem fara yfir 50.000 danskar kr.

Þá ber þingmönnunum enn fremur að greina frá samningum við fyrri og væntanlega vinnuveitendur um núverandi störf og framtíðarstörf, svo sem samningum um launagreiðslur, óbeinum launum, t.d. lífeyrisréttindum, og samningum um setningu, skipun eða ákvörðun um vinnu hjá framtíðarvinnuveitanda eftir að þingmennsku lýkur.

Í greinargerðinni er einnig getið siðareglna í breska þinginu sem ég tel ekki ástæðu til að fara ítarlega út í. En eins og fram kemur í greinargerð og í máli mínu er víðast hvar að finna siðareglur í þjóðþingum og engin ástæða til þess Íslendingar búi ekki við siðareglur líkt og í öðrum þjóðþingum.

Ég vil nefna í lokin að Evrópuþingið setti sér siðareglur fyrir þingmenn og starfsmenn þess sem ætlað er að tryggja sjálfstæði þingsins og viðhalda trúnaðartrausti almennings á því. Þingmennirnir eiga að forðast að taka við gjöfum, þurfa að skrá fjárhagslega hagsmuni sína og eignir sem geta valdið hagsmunaárekstrum í starfinu hjá þinginu og er skráningin höfð aðgengileg á netinu. Munurinn á þessum reglum og þeim sem gilda á Norðurlöndunum er að þær eru valkvæðar en ekki þessar.

Ég held, virðulegi forseti, að þó að siðareglur fyrir alþingismenn og aðrar stéttir leysi ekki allan vandann og sífellt komi upp ný siðferðileg álitaefni séu þær þó nauðsynlegar til þess að treysta trúnaðarsamband þingsins við almenning og það verður að telja að skýrar leiðbeinandi reglur styrki störf þingmanna og auki trúnað og traust almennings.

Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er ekki mótað hér eða lagt niður frá orði til orðs hvernig slíkar reglur eigi að vera, heldur er þessari tillögu fyrst og fremst ætlað að menn setjist yfir það að móta slíkar siðareglur fyrir alþingismenn. Forsn. hafi þar frumkvæði og hafi hliðsjón af siðareglum annarra þjóðþinga og að þessar reglur verði tilbúnar í upphafi nýs þings árið 2004.

Virðulegi forseti. Varðandi siðareglur í stjórnsýslunni, en það eru sömu flutningsmenn sem flytja þessa tillögu og hina fyrri sem ég nefndi, um siðareglur fyrir alþingismenn, þá felur sú tillaga í sér að ríkisstjórnin skipi nefnd til að setja siðareglur í stjórnsýslunni. Markmið með setningu reglnanna er að tryggja betur aga, vönduð vinnubrögð og ábyrga meðferð fjármuna í stjórnsýslunni. Hafðar verði m.a. til hliðsjónar almennar reglur stjórnsýsluréttar um meðferð opinbers valds við töku stjórnvaldsákvarðana sem snerta hagsmuni og réttindi eða skyldur borgaranna. Jafnframt taki reglurnar mið af leiðbeiningarreglum OECD um hvernig stuðla beri að bættu siðferði í opinberum rekstri. Reglurnar á að undirbúa í samráði við samtök opinberra starfsmanna og taki gildi eigi síðar en 1. júní 2004.

Tillaga þessi var áður flutt á 127. löggjafarþingi. Hún felur í sér að mótaðar verði siðareglur fyrir stjórnsýsluna. Eins og tillögugreinin ber með sér er megintilgangur þeirra að styrkja vönduð vinnubrögð í stjórnsýslunni og stuðla að því að starfsemin þjóni betur hagsmunum almennings.

Í vaxandi mæli hafa starfsstéttir hér á landi sett sér siðareglur. Ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa sett starfsmönnum sínum starfsreglur sem ekki flokkast sem siðareglur en hafa engu síður siðferðilegt innihald. Fjármálaeftirlitið hefur þannig nýverið gefið út leiðbeinandi tilmæli um efni reglna fjármálafyrirtækja og útgefenda verðbréfa um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.

Ég vil einnig nefna að nefnd Efnahags- og framfarastofnunar um opinbera stjórnsýslu hefur birt leiðbeiningar til aðildarríkjanna um hvernig stuðla beri að bættu siðferði í opinberri stjórnsýslu.

Þær leiðbeiningar sem ég nefndi og fjmrn. hefur sett ganga allt of skammt og eru einungis rammi utan um slíkar reglur. Það er því ljóst að þó að þær séu fyrir hendi er engu að síður nauðsynlegt að móta slíkar siðareglur eins og kallað er eftir í þessari tillögu. Slíkar siðareglur munu skapa reglufestu innan stjórnsýslunnar og ljóst að þær munu styrkja alla stjórnsýsluna ef tillagan nær fram að ganga.

Það er skoðun flutningsmanna að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ásamt almennum innri stjórnvaldsfyrirmælum, skráðum siðareglum, skýrum erindisbréfum og skýrt skilgreindri ábyrgð og stjórnunar- og eftirlitsheimildum innan stjórnsýslunnar ættu að geta myndað góðan ramma um sterka, heilbrigða og gegnsæja stjórnsýslu þar sem hagsmunir almennings eru ávallt í fyrirrúmi. Hinu eru flutningsmenn líka sammála sem m.a. kemur fram í skýrslu um starfsskilyrði stjórnvalda sem getið er í greinargerð, en á Alþingi var samþykkt tillaga um bætt siðferði í opinberum rekstri og sú tillaga leiddi til þess að skipuð var nefnd sem átti að kanna starfsskilyrði stjórnvalda og niðurstaðan af því starfi var ítarleg skýrsla um starfsskilyrði stjórnvalda, en í þeirri skýrslu kom fram að þó að vandaðar og ítarlegar siðareglur leysi ekki allan vanda sem upp kemur og upp koma sífellt ný siðferðileg álitaefni, er engu að síður nauðsynlegt að setja slíkar siðareglur eins og hér er lagt til.

Í þessari tillögu er ekki mælt fyrir um það á hvern hátt nefndin skuli skipuð sem fær þetta verkefni. Flutningsmenn leggja þó áherslu á að í henni sitji sérfróðir einstaklingar á sviði stjórnsýsluréttar og siðfræði.

Telja verður að setning siðareglna sé ótvírætt í samræmi við kosti reglna og reglufestu innan stjórnsýslunnar sem aftur tryggir aga, vönduð vinnubrögð og ábyrga meðferð opinberra fjármuna, en það er tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að loknum umræðum um þessar þingsályktunartillögur verði þeim vísað til síðari umræðu og hv. allshn.