Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:42:30 (4312)

2004-02-17 15:42:30# 130. lþ. 65.8 fundur 207. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., 208. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samhliða tvær till. til þál. Sá sem hér stendur er einn af flutningsmönnum þeirra tillagna, annars vegar um siðareglur í stjórnsýslunni og hins vegar um siðareglur fyrir alþingismenn.

Hv. 1. flm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði góða grein fyrir báðum þessum tillögum. Meginmarkmið þeirra er að lagfæra vinnubrögð og styrkja stjórnsýsluna og tryggja að hagsmunum almennings sé betur þjónað. Sama á við um siðareglur fyrir alþingismenn. Það er auðvitað eðlilegt að þingmenn setji sér siðareglur líkt og aðrar starfsstéttir í þjóðfélaginu og þingmenn annarra þjóðþinga.

Varðandi þær tillögur sem við ræðum hér saman um þetta tiltekna málefni, að við setjum okkur reglur, annars vegar að forsn. taki að sér verkefni um siðareglur fyrir alþingismenn og hins vegar sérstök nefnd um siðareglur í stjórnsýslunni, þá tel ég að í báðum tilfellum sé málið sett í þann farveg sem eðlilegt verður að teljast. Að sjálfsögðu er eðlilegt að taka mið af þeim reglum sem notaðar eru og settar hafa verið annars staðar, í öðrum löndum og er bent á það sérstaklega í tillögunni varðandi alþingismenn að líta til norsku, sænsku og dönsku reglnanna að því leyti til. Ég tel fullkomlega eðlilegt að ætlast til þess af hv. alþingismönnum að þeir geri grein fyrir því hvar þeir hafa störf og ítök, ef svo vill til að þeir gegni öðrum störfum, trúnaðarstörfum eða öðrum störfum en á hv. Alþingi, og að þegnum landsins sé það ljóst hvar menn eiga hagsmuni eða tengda ábyrgð eða hafa aðkomu að einstökum málum og málaflokkum, hvort sem það telst ábyrgð sem fylgir stjórnarsetu í fyrirtækjum eða einfaldlega að menn starfi í ákveðnum samtökum og félagasamtökum o.s.frv. þar sem menn leggja ákveðnum málefnum lið.

Ég mun ekki bæta framsögu hv. 1. flm. að neinu leyti þó að ég fari að endurtaka það sem stendur í greinargerðinni og farið var yfir af 1. flm., Jóhönnu Sigurðardóttur, en tel að hvort tveggja málanna eigi fullan rétt á sér og að vinna beri að því að þau komi fyrir Alþingi þannig að Alþingi geti tekið ákvarðanir um efni þeirra í samræmi við það sem lagt hefur verið til.