Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:55:36 (4314)

2004-02-17 15:55:36# 130. lþ. 65.8 fundur 207. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., 208. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá tilefni til að koma hér upp vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason fór að skilgreina stjórnarstörf, annars vegar í fyrirtækjum og hins vegar í félögum. Ekki það að ég sé honum mjög ósammála um að eðli starfa í stjórnum fyrirtækja er nokkuð annað en í stjórnum félaga. Samt er ekki mjög einfalt að draga þessa línu út frá því hvenær menn eru að gæta hagsmuna sinna eða félagsmanna sinna, og hvenær ekki.

Við þekkjum jú umræðuna sem hér varð um eignaraðildina að SPRON og þá hugsun manna að selja þar fé sitt og rúmlega það. Sú umræða öllsömul hefur auðvitað skerpt á þeim viðhorfum sem við þurfum kannski að taka þegar við erum að ræða þessi mál. Ég minni einnig á, virðulegi forseti, að menn eru í stjórnum íþróttafélaga, eru kannski að gæta hagsmuna þar þegar verið er að skipta fé o.s.frv. Menn eru í stjórnum góðgerðarfélaga. Þau hafa líka tekist á um fjármagn góðgerðarstofnana héðan frá Alþingi, svo að við munum eftir. Menn eru í stjórnum verkalýðsfélaga, þar liggja líka mismunandi áherslur. Svo getum við bætt einhverju við, t.d. hagsmunafélagi landeigenda. Það er ekki einfalt, eins og ég veit að hv. þm. veit, að draga þessa línu sem hann vakti athygli á.