Sérkennslu- og meðferðardagdeild fyrir börn með geðrænan vanda

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 16:06:30 (4317)

2004-02-17 16:06:30# 130. lþ. 65.12 fundur 278. mál: #A sérkennslu- og meðferðardagdeild fyrir börn með geðrænan vanda# þál., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Lúðvík Bergvinsson, Kjartan Ólafsson, Brynja Magnúsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Grétar Mar Jónsson og Jón Gunnarsson.

Tillögugreinin orðast svo:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að ganga frá samningum um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda og leggja fyrir Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar eigi síðar en 1. október 2004.``

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

Tillaga þessi er flutt vegna þess að nauðsynlegt er að taka nú þegar til skoðunar stöðu þeirra barna á grunnskólaaldri sem búa við alvarlegan geðrænan eða félagslegan vanda. Það er löngu ljóst að ekki er hægt að sinna lögboðinni kennslu þeirra í almennum bekkjardeildum og víða skapast veruleg vandamál vegna þessa bæði hvað varðar líðan barnanna og einnig fyrir skóla þeirra. Þá er ljóst að í grunnskólanum er ekki hægt að veita þeim þá sérhæfðu meðferð sem þau þurfa vegna veikinda sinna, enda er það hlutverk heilbrigðiskerfisins. Reykjavíkurborg skipaði sérstakan starfshóp til að skoða stöðu þessara mála hjá borginni. Sá starfshópur skilaði skýrslu og tillögum til úrbóta í maí 2003.

Heilbrigðisráðherra hefur reifað þær hugmyndir að ráða til starfa verkefnisstjóra sem meðal annars verði ætlað að samþætta ýmis málefni er varða börn með geðrænan eða félagslegan vanda. Þar er um viðamikið verkefni að ræða sem að líkindum mun taka nokkurn tíma þar til heildartillögur um meðferð þessara barna liggja fyrir. Eftir því sem ég best veit, virðulegi forseti, hefur verkefnastjórinn þegar verið ráðinn og hafið störf í heilbr.- og trn.

Það er mat flutningsmanna að það þoli ekki bið að vinna að úrbótum í málefnum barna með geðrænan og félagslegan vanda í grunnskólakerfinu. Því er þessi tillaga flutt.

Hefðbundinn skóli með ákveðinni stundaskrá, hefðbundinni lengd kennslustunda og frímínútna er kerfi sem gagnast nemendum með geðrænan eða félagslegan vanda illa eða alls ekki. Jafnframt líður sumum þessara ungu nemenda illa vegna þess flókna og síbreytilega félagslega veruleika sem skólinn endurspeglar. Slök félagsfærni, léleg sjálfsmynd, ábyrgðarleysi eða árásargirni leiðir til tíðra árekstra við aðra í leik og starfi og samveru með fjölskyldunni. Í verstu tilvikum verða þessir nemendur utangarðsfólk, með enga framhaldsmenntun, háðir fíkniefnum, hneigðir til afbrota, glímandi við geðsjúkdóma og með stopula atvinnu. Hætta er á að þeir geti ekki séð sér farborða og haldið heimili á fullorðinsárum. Kostnaður samfélagsins vegna erfiðleika þeirra getur orðið verulegur. Til að reyna að koma í veg fyrir að svo fari þurfa sumir nemendur mikinn sérstuðning og annað umhverfi en þekkist almennt í grunnskólum hérlendis.

Segja má að þessir nemendur skiptist gróflega í tvo flokka; þá andfélagslegu og þá vanvirku. Vanlíðan þeirra andfélagslegu birtist í árásum á skólafélaga eða kennara og starfsfólk og eignaskemmdum sem oft eru unnar í stjórnlausum bræðisköstum. Vanlíðan hinna vanvirku getur endurspeglast í þunglyndi, kvíðaköstum og verulega skertri sjálfsmynd. Báðir þessir hópar þurfa sérstuðning sem beinist að námi þeirra og félagslegri stöðu. Jafnframt þarf að hafa með sumum í þessum hópi mikið eftirlit og veita þeim aðstoð, innan sem utan skólastofu.

Fyrir þennan hóp þarf að búa til námsumhverfi utan heimaskólans sem er sveigjanlegra, margbreytilegra og rólegra en hefðbundinn skóli. Þetta námsumhverfi þarf að mæta þörfum hvers einstaklings með skýrum og mælanlegum náms- og hegðunarmarkmiðum.

Til að skilgreina þennan hóp má hafa þá almennu reglu að leiðarljósi að um sé að ræða nemendur sem sakir alvarlegra geðrænna erfiðleika hafi ekki tekið viðunandi framförum í sínum heimaskóla og þurfi á öðru námsumhverfi að halda um lengri eða skemmri tíma. Ljóst sé að heimaskóli viðkomandi hafi gert sitt ýtrasta til að draga úr erfiðleikum nemandans.

Ef skilgreina á þennan hóp nánar má hafa til hliðsjónar vinnureglu II sem eru núgildandi viðmiðunarstig fyrir geðraskanir hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar er að finna skilgreiningar á úthlutunarreglum sjóðsins vegna fjölþátta hegðunartruflana, verulegra truflana varðandi tilfinningar og félagslega aðlögun og viðvarandi og alvarleg einkenni geðrofs eða geðhvarfa. Skilyrði fyrir úthlutun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að erfiðleikar af þessu tagi leiði til umfangsmikils stuðnings vegna félagslegra þátta, tilfinningalegra þátta og hegðunarþátta, og þörf sé á sérhæfðri ráðgjöf og í mörgum tilvikum eftirliti.

Í grunnskólum á þjónustusvæði skólaskrifstofu Suðurlands eru um þessar mundir u.þ.b. tíu nemendur sem eiga í verulegum erfiðleikum með skólaveru sína og nám vegna alvarlegra hegðunar- og tilfinningaraskana og aðrir tíu sem þurfa á sérkennslu að halda.

Hjá skólaskrifstofu Suðurlands hafa verið lagðar fram hugmyndir um að á vegum Heilbrigðisstofnunar Selfoss verði stofnuð í tilraunaskyni dagdeild fyrir geðfötluð börn. Börn með geðfatlanir eða svo alvarlega vanlíðan að venjuleg skólaganga gagnast þeim lítt eða ekkert fái tímabundið dagvistun á deildinni. Þar sjái ríkisvaldið fyrir meðferðarfulltrúum, læknis- og sálfræðiþjónustu og húsnæði, a.m.k. að hluta til. En lögheimilissveitarfélög viðkomandi barna greiði fyrir kennsluna eins og lög gera ráð fyrir. Ekki yrði um sérstakan skóla að ræða, heldur félli kennsla í deildinni í hlut þess skóla sem næstur yrði, allt eftir því hvar dagdeildin yrði. Lögð yrði áhersla á að þau börn sem eru í dagvist á deildinni haldi áfram að sækja félagslíf í heimaskóla sínum eins og kostur er og missi ekki tengslin við hann. Reikna mætti með að börnin yrðu á deildinni í mislangan tíma eftir því hversu alvarleg og langvinn veikindi þeirra eru en færu aftur í sinn heimaskóla strax og þess er nokkur kostur.

Þess má geta að á Suðurlandi er eitt stöðugildi sálfræðings á heilsugæslustöðvum á Suðurlandi sem sinnir börnum og unglingum. Það mætti nota þessa stöðu að einhverju leyti til að sinna meðferð á dagdeildinni, enda hafa þeir sem þessari stöðu gegna oft unnið með þessum börnum og foreldrum þeirra. Sálfræðingarnir sem starfa á skólaskrifstofu Suðurlands gætu tekið þátt í að skipuleggja hvernig best væri að hanna nám og námsaðstæður fyrir nemendurna.

Ríkisvaldið rekur nokkur meðferðarheimili á landinu, þar á meðal Torfastaði og Geldingalæk á Suðurlandi. Börnin á Geldingalæk sækja grunnskólann á Hellu. Á þessum meðferðarheimilum greiðir ríkið fyrir meðferð og kennslu barnanna og þau eru vistuð þar allan sólarhringinn. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa rekið skóla fyrir börn með vandamál af þessu tagi og borið allan kostnað af því. Þar eru börnin meðan á skóladegi stendur, eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu, en á eigin heimili eða fósturheimili þess á milli. Þar er að mati flutningsmanna ekki um rétta kostnaðarskiptingu að ræða því að það er ríkisins að sjá um meðferð barna með geðrænan og félagslegan vanda.

Það er nauðsynlegt að börn með geðrænan eða félagslegan vanda njóti kennslu á grunnskólastigi eins og lög gera ráð fyrir en samhliða verða þau að fá meðferð við sjúkdómi sínum. Það verður ekki að fullu gert í almennum bekkjardeildum. Því er þessi tillaga flutt.

Skýrsla starfshóps um sérúrræði fyrir nemendur með geðrænan og félagslegan vanda, sem út kom í maí 2003, og tillögur hennar um úrlausnir varðandi málefni þessara barna í Reykjavík fylgja sem fylgiskjal með tillögunni.

[16:15]

Virðulegi forseti. Það er dálítið sérstakt en að þessari þáltill. standa allir þingmenn Suðurk. Á ferðum okkar í kjördæmavikunni hittum við fulltrúa Skólaskrifstofu Suðurlands og forstöðumann Skólaskrifstofu Suðurlands, Kristínu Hreinsdóttur. Við fórum yfir stöðuna í þessum málaflokki á Suðurlandi. Þegar við fórum að skoða málið betur fengum við upplýsingar um að víða eru sambærilegar aðstæður og á Suðurlandi, þ.e. mörg börn með mjög alvarlegar geðraskanir sem fá í raun ekki þá meðferð sem þau eiga rétt á. Þau fá ekki kennsluna heldur vegna álagsins af sjúkdómum þeirra og vegna þess hve erfitt þau eiga með að vinna í almennum bekkjardeildum.

Þingmenn Suðurk. ákváðu að flytja og standa saman að flutningi þáltill. um stofnun sérkennslu- og meðferðardeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda þar sem tekið væri á þessu vandamáli. Eins og fram kemur í tillögunni bæri sveitarfélag, þar sem heimaskóli viðkomandi barns væri, kostnað af kennslunni en meðferðarstarfið væri hins vegar, eins og eðlilegt er, hjá ríkinu enda er þar um heilbrigðisþjónustu að ræða.

Í raun er ekkert sjálfsagðara að börn með alvarlega geðræna sjúkdóma séu inni í almennri kennslu en börn sem eru með alvarlega líkamlega sjúkdóma. Auðvitað eiga börn með alvarlega geðræna sjúkdóma að njóta sömu réttinda og þau sem glíma við alvarlega líkamlega sjúkdóma, sjúkdóma sem valda því að þau geta ekki sótt nám í almennar bekkjardeildir. Það er jafneðlilegt að ríkið beri kostnað af þeirri heilbrigðisþjónustu sem þessi börn þurfa.

Eftir heimsóknir í skóla þar sem maður kynnist þeim vandamálum sem við er að etja hjá þessum börnum sem eru alvarlega veik þá stingur það hve illa skólagangan nýtist börnum með geðfatlanir eða alvarlega vanlíðan í almennum bekkjardeildum. Þau verða fyrir einelti, einangrast, verða árásargjörn eins og fram kemur í greinargerðinni og geta á engan hátt notið þeirrar kennslu sem fram fer og þau eiga rétt á samkvæmt lögum þessa lands. Samkvæmt lögum eiga allir rétt á sambærilegri kennslu.

Það kemur fram í greinargerðinni að börn sem eiga við alvarlegar geðraskanir að stríða á Suðurlandi eða skólaskrifstofusvæðinu þar eru um tíu. Ég hef hins vegar upplýsingar frá 14. október 2003 þar sem fram kemur að í Reykjavík sé talað um 2,5--4% allra barna, þ.e. frá 300--500 börn, eftir því út frá hvaða skilgreiningu er gengið. Þar er mikill fjöldi talinn eiga við alvarleg hegðunarvandkvæði eða geðraskanir að stríða. Allt of mörg börn með alvarlegar geðraskanir eða atferlistruflanir eru á biðlista eftir plássi inni á BUGL. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans getur engan veginn annað þeim stóra hópi sem á við þennan sjúkdóm að stríða. Auðvitað verður að horfa á það sem sérstakt vandamál sem þarf að leysa en við teljum að dagdeild gæti hugsanlega komið í stað hluta þeirrar meðferðar sem fram fer á barna- og unglingageðdeildinni. Við teljum sjálfsagt að reyna að byggja upp þessa þjónustu nær heimaskóla barnsins og stytta þá biðlista sem eru til staðar.

Barna- og unglingageðdeild verður auðvitað að útskrifa frá sér börn eftir sérstaka meðferð þar. Að meðaltali eru þau þar 6--7 vikur eða eitthvað lengur. Þegar þau útskrifast af deildinni er hins vegar ekki þar með sagt að þau hafi hlotið fullan bata. Þau eru því sett aftur inn í almennar bekkjardeildir þar sem við tekur sama stríðið og áður. Þetta er vandamál sem við viljum gjarnan að tekið verði á og að þess verði gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri. Í 29. gr. grunnskólalaga segir að við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skuli þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms og komið sé í veg fyrir mismunun, t.d. vegna uppruna og að tekið sé mið af mismunandi persónugerð, þroska, hæfileikum, getu ða áhugasviðum nemenda í öllu skólastarfi.

Jafnframt segir í 9. gr. laga um grunnskóla að allir grunnskólar landsins eigi rétt á sérfræðiþjónustu og að nemendur, sem ekki geta notið kennslu með fullnægjandi hætti í almennum grunnskóla, fái kennslu við hæfi. Þarna er kveðið á um rétt þeirra barna sem ekki geta, vegna alvarlegra veikinda, starfað eða unnið í almennum bekkjardeildum.

Að lokinni þessari umæðu legg ég til að tillögunni verði vísað til heilbr.- og trn. með umsögn menntmn.