Úttekt á tryggingamálum verknámsnemenda

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 16:35:45 (4320)

2004-02-17 16:35:45# 130. lþ. 65.11 fundur 225. mál: #A úttekt á tryggingamálum verknámsnemenda# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á tryggingamálum verknámsnemenda sem ég flyt ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni.

Í rauninni er þetta afskaplega einföld þáltill. Felur hún í sér að Alþingi álykti að beina því til fjmrh. að hann láti gera úttekt á stöðu tryggingamála nemenda í verknámi framhaldsskólastigs. Kannað verði hver staða þessara mála sé, hvort slys á nemendum í verknámi séu skráningarskyld, hver kostnaður við tryggingu sé, hver sé fjöldi nemenda í verknámi og annað er nýtast kann við slíka úttekt.

Virðulegur forseti. Tilefni þessarar þáltill. er að við sátum, nokkrir hv. þm., á þingi Iðnnemasambandsins á sl. ári, því síðasta þingi sem Iðnnemasambandið hélt, og þar voru þessi mál mjög til umræðu. Voru höfð uppi nokkuð stór orð um stöðu þeirra og ýmsir fullyrtu að verknámsnemar, hvort heldur þeir væru í verklegu námi innan skóla eða í starfsþjálfun úti á vinnustöðum, væru ekki tryggðir. Því var jafnvel haldið fram að þeir væru ekki skráningarskyldir, með öðrum orðum að þessi mál væru öll í lamasessi.

Hvað er rétt og hvað er rangt í þessu skal ósagt látið hér en þáltill. gengur út á að láta gera faglega úttekt á þessu, kanna stöðuna og hvað þurfi til þess að bæta þar úr. Það er rétt í þessu sambandi að leggja áherslu á það að til þess að koma starfsþjálfun í tengslum við umræðu um eflingu starfsnáms í skólakerfi okkar, sem þingheimur virðist almennt vera mjög sammála um, a.m.k. í orði, í rétt horf þarf hún örugglega að hluta til að fara fram úti í fyrirtækjum en að einhverju leyti að sjálfsögðu inni í skólum. Þá er mjög mikilvægt að réttarstaða nemenda sé alveg skýr hvað þetta varðar. Það segir sig sjálft að í ýmsu verklegu námi, við getum sagt í trésmíðanámi, er ákveðin slysahætta, enda hafa svo sem orðið þar, illu heilli, slys annað slagið og það er mikilvægt að staða nemenda sé afskaplega skýr hvað varðar þessa aðstöðu.

Um þetta þarf í sjálfu sér ekki meira að segja. Þáltill. gerir sem sagt ráð fyrir því að þessi úttekt fari fram og að á grundvelli þeirrar úttektar verði þá hægt að bregðast við.

Virðulegur forseti. Ég hef þar með lokið máli mínu og mælist til þess að að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.