Atvinnulýðræði

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 16:53:05 (4324)

2004-02-17 16:53:05# 130. lþ. 65.18 fundur 271. mál: #A atvinnulýðræði# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um atvinnulýðræði. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Helgi Hjörvar og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Með þáltill. þessari er lagt til að hafin verði markviss athugun á því hvernig unnt er að innleiða hér á landi það sem kallað hefur verið atvinnulýðræði.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd er hafi það hlutverk að kanna og gera tillögur um það hvernig unnt sé að tryggja áhrif starfsmanna á stjórnun og ákvarðanatöku í fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Nefndin skoði hvaða leiðir hafa verið farnar í nágrannalöndunum, einkum í Danmörku og í Þýskalandi og jafnframt á vettvangi Evrópusambandsins. Hún verði skipuð fulltrúum heildarsamtaka launþega og fulltrúum samtaka atvinnulífsins auk fulltrúa ráðherra og ljúki störfum fyrir 1. október 2004.``

Rökin fyrir auknum áhrifum starfsmanna eru m.a. þau að með auknu samstarfi og upplýsingastreymi er hægt að ná fram hagkvæmum áhrifum á rekstur fyrirtækis og stöðu starfsmanna. Aukið atvinnulýðræði bætir starfsanda, veitir stjórnendum aðhald, bætir kjör og eykur lýðræðislega stjórnunarhætti. Atvinnulýðræði vinnur gegn óeðlilegri valdasamþjöppun og er hluti af góðri fyrirtækjamenningu sem er mikilvægur þáttur í nútímastjórnun.

Fleiri rök fyrir aðild starfsfólks að stjórnun félaga og stofnana eru m.a. að tekið er tillit til hagsmuna starfsmanna með því að bæta aðgengi að reynslu og upplýsingum sem starfsmenn búa yfir.

Hægt er að skipta atvinnulýðræði í nokkur stig þar sem fyrsta stigið er óformleg upplýsingagjöf frá æðstu stjórnendum og eigendum til starfsmanna. Næsta stig er samráð um starfsumhverfi eða afmarkaða þætti í stjórnun fyrirtækisins. Þriðja stigið felur í sér að ráðandi hópar, þ.e. eigendur, æðstu stjórnendur og starfsmenn, taka sameiginlega ákvarðanir um stjórnun fyrirtækisins.

Oft er rætt um tvær leiðir sem eru færar til að auka áhrif starfsmanna innan félaga og stofnana. Önnur er sú að starfsmenn hafi áhrif á mál sem snerta vinnutilhögun, svo sem vinnutíma, aðbúnað, kaup og kjör. Hin felst í því að auka áhrif starfsmanna á stjórnun. Hvorugt er algengt hérlendis og eru Íslendingar langt á eftir nágrannaþjóðunum hvað varðar þessa þætti í skipulagi atvinnulífsins.

Fyrirtæki hafa í auknum mæli horfið frá miðstýringu til dreifstýringar þar sem einstakir starfsmenn taka sífellt meiri þátt í ákvörðunum sem tengjast vinnu þeirra. Talið er að gott samband milli stjórnenda og starfsmanna sé í þágu beggja og hafi í för með sér bættan hag fyrirtækis, svo og betri starfsanda, ánægðari starfsmenn og betri launakjör. Atvinnulýðræði er þannig góð aðferð til að styrkja félög og stofnanir, auka framleiðni og hækka laun, auk þess sem þessi leið eykur nauðsynlegt eftirlit í heimi vaxandi samkeppni.

Í löggjöf Evrópusambandsins eru ákvæði um atvinnulýðræði og er vikið að því í kafla um félagaréttarákvæði EES-samningsins. Nú þegar hefur tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001, um viðbætur við stofnsamþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, verið felld inn í EES-samninginn í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem staðfest hefur verið af Alþingi. Í greinargerð sem fylgdi tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sagði m.a.:

,,Tilskipun 2001/86/EB er ætlað að vernda rétt starfsmanna til aðildar að málum og ákvörðunum sem snerta starfsemi Evrópufélagsins sem þeir vinna hjá. Um önnur málefni sem varða félagsmála- og vinnulöggjöf, einkum um rétt starfsmanna, samkvæmt reglum aðildarríkjanna, til upplýsinga og samráðs, fer að viðeigandi, innlendum ákvæðum sem gilda með sömu skilyrðum um hlutafélög. Miða ákvæði tilskipunarinnar að því að tryggja að reglur um aðild starfsmanna í þátttökufélögunum í stofnun Evrópufélags hvorki hverfi né að vægi þeirra minnki við stofnun Evrópufélagsins.``

Síðar segir í sömu greinargerð, með leyfi forseta:

,,Þar sem bein þátttaka starfsmanna í stjórn fyrirtækja tíðkast almennt ekki á íslenskum vinnumarkaði eru ekki líkur til þess að tilskipunin muni leiða til þess að réttindi launamanna minnki með tilkomu Evrópufélaga. Þvert á móti er líklegra að í einhverjum tilvikum geti stofnun Evrópufélags leitt til þess að íslenskir starfsmenn félagsins öðlist meiri rétt en áður á grundvelli reglna tilskipunarinnar, þ.e. í þeim tilvikum sem starfsmenn erlendra félaga sem þátt taka í stofnun félagsins eiga á grundvelli laga í því aðildarríki eða samþykkta viðkomandi félags rétt til aðildar að ákvarðanatöku í félaginu.``

Það er ljóst, virðulegi forseti, að þessar reglur munu aðeins gilda um Evrópufélög og því er full ástæða til að skoða þessi mál hvað önnur félög varðar og jafnframt stofnanir hins opinbera.

Þótt hagsmunir starfsmanna og vinnuveitenda geti oft farið saman innan fyrirtækis takast þessir aðilar einnig á, einkum um kaup og kjör. Þróunin hérlendis virðist sú að fyrirtækja- og stofnanasamningar verði gerðir í ríkari mæli en áður. Hér á landi hefur hlutabréfamarkaður rutt sér til rúms og eignaraðild dreifst í fjölmörgum félögum. Það ýtir enn frekar undir þátttöku starfsmanna í ákvörðunum innan einstakra fyrirtækja og stofnana eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir.

Í núgildandi lögum um hlutafélög og einkahlutafélög er heimild til að veita megi stjórnvöldum eða öðrum rétt til að tilnefna einn eða fleiri stjórnendur. Þannig gætu hlutafélög, miðað við núverandi löggjöf, ákveðið að starfsmenn tilnefndu aðila í stjórn. Hins vegar er ekki vitað til þess að svo sé gert í nokkru íslensku hlutafélagi. Tilgangur þessarar tillögu er að koma því til leiðar að áhrif starfsmanna verði tryggð á stjórnun fyrirtækja og stofnana. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að atvinnulýðræði er tiltölulega vanþróað hér á landi og að við erum áratugum á eftir nágrannaþjóðunum hvað varðar áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja.

Ástæða er til að skoða, herra forseti, vandlega þær leiðir sem farnar hafa verið í Danmörku. Þar er atvinnulýðræði tryggt með þeim hætti að starfsmenn kjósa tiltekið hlutfall stjórnarmanna í hlutafélögum. Jafnframt mætti nefna að tillaga þessi á rót sína að rekja til frumvarps sem var fyrst flutt á 121. þingi af þáverandi þingflokki jafnaðarmanna en fyrsti flutningsmaður var Ágúst Einarsson. Hans frv. byggði m.a. á þessari dönsku leið, þ.e. að starfsmenn kjósi tiltekið hlutfall stjórnarmanna í hlutafélögum. Sú leið var lögð til í þessu frv. á sínum tíma, 121. löggjafarþingi, og sótti fyrirmynd sína til Danmerkur.

[17:00]

Það að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja og stofnana er leið sem búast má við að skili mestum árangri á tiltölulega skömmum tíma. Einnig hafa verið ákvæði í þýskri löggjöf frá um 1950 um áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja og stofnana. Í Noregi var starfsmönnum ríkisfyrirtækja veittur réttur til þess að velja fulltrúa í stjórn þegar árið 1947.

Ákvæðin í dönsku hlutafélagalöggjöfinni um rétt starfsmanna til að kjósa fulltrúa í stjórn félaga eru frá árinu 1973 og hafa reynst vel. Ákvæðin gilda um fyrirtæki sem hafa 35 starfsmenn eða fleiri.

Tilgangur þessarar tillögu er fyrst og fremst að opna umræðu um atvinnulýðræði í íslenskum félögum og stofnunum. Norðurlöndin hafa náð langt á þessu sviði, svo og Þýskaland og reyndar mörg lönd innan Evrópusambandsins.

Herra forseti. Flutningsmenn telja að almennar reglur um atvinnulýðræði sem tækju til allra félagaforma sem og stofnana ríkisins mundu styrkja íslenskt atvinnulíf og bæta kjör launafólks, jafnframt því að greiða fyrir aukinni framleiðni félaga og stofnana og bæta þar með samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamarkaði.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa tillögu nú við fyrri umræðu málsins. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og ég geri ráð fyrir, virðulegi forseti, að málið eigi heima í félmn. og legg til að því verði vísað til hv. félmn.