Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:33:32 (4326)

2004-02-18 13:33:32# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hefur vakið nokkra athygli að stjórnarliðar hafa komið inn í umræðuna með hugmyndir um að afleggja hið fræga veiðigjald sem var sett á á síðasta kjörtímabili og mikil átök urðu um í þinginu. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur sett það fram að vel mætti svo sem skipta á þessu gjaldi í staðinn fyrir sjómannaafsláttinn, en um hann virðist orðinn einhver kaupskapur milli stjórnarliða og annarra hér. Þetta hefur náttúrlega vakið mikla athygli.

Ekki síður vakti það athygli mína þegar það kom fram í viðtali við hv. formann sjútvn. Alþingis Guðjón Hjörleifsson að um veiðigjaldið hefði ekki orðið nein sátt þannig að ekki er nein sátt um þetta fræga sáttamál ríkisstjórnarinnar sem var kynnt sem slíkt og deilt um í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar, að mati formanns sjútvn. og forsvarsmanns Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum á hv. Alþingi. Ég held að það sé kominn tími til þess að menn velti því fyrir sér hvað sé í gangi því að varla getur það verið tilviljun þegar tveir stjórnarliðar stökka fram á veginn og jarða þetta veiðigjald. Við vorum á móti því á sínum tíma og ekki græt ég það þó það detti upp fyrir því að um það er auðvitað engin sátt. En þessi ríkisstjórn hefur sett það fram að hún ætli að setja eignarhald á auðlindinni í stjórnarskrána. Því er kominn tími til að menn svari því hvaða sátt eigi að verða um þá niðurstöðu. Ég hvet til þess að menn svari því hér hvort þeir séu tilbúnir til þess að leita sátta um þetta mál. Þá gætu menn kannski fundið leiðir til þess að komast frá þessu óvinsæla veiðigjaldi og yfir í eitthvað annað sem gæfi mönnum betra tækifæri til sátta í málinu.